„Brotaþoli getur aldrei borið ábyrgð á ofbeldisverknaði“

Björgvin Björgvinsson.
Björgvin Björgvinsson. mbl.is/Júlíus

„Ég er enn þeirrar skoðunar að hver og einn beri ábyrgð á að gæta sín varðandi neyslu [vímugjafa]. Það er vegna þess að þegar manneskja getur ekki spornað við verknaði vegna ástands síns þá eru til menn sem notfæra sér það. Manneskja sem er t.d. ofurölvi ber ekki neina ábyrgð á framkvæmd brotsins – nauðgun eða misneytingu,“ sagði Björgvin Björgvinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins.

Björgvin vék úr embætti yfirmanns kynferðisbrotadeildar R-3 sl. þriðjudag að eigin ósk. Ástæðan var hörð viðbrögð við ummælum sem eftir honum voru höfð í viðtali í DV á mánudag. Hann telur að þau hafi verið misskilin. Þeir sem til sín þekki viti hver afstaða hans sé og hvern mann hann hafi að geyma.

Telur ummælin mistúlkuð

Björgvin vitnaði til rannsóknar Agnesar Gísladóttur á komum á Neyðarmóttöku vegna nauðgana á árunum 1998-2007. Þar kom m.a. fram að um 70% þolenda nauðgana höfðu neytt áfengis áður en ofbeldið átti sér stað. Hlutfall þolenda sem voru í áfengisdái eða með verulega skerta meðvitund þegar þeim var nauðgað jókst úr tæpum 36% á árunum 1998-2000 í tæp 50% að meðaltali 2003-2007. Björgvin kvaðst hafa haft þessa þróun í huga þegar hann ræddi við DV. Ummælin sem ollu viðbrögðunum hörðu voru: „Fólk ætti kannski að líta oftar í eigin barm og bera ábyrgð á sjálfu sér.“

Björgvin segir að þessi orð hafi verið túlkuð svo að hann telji að fórnarlamb eða brotaþoli beri ábyrgð á ofbeldinu eða afbrotinu.

„Það getur aldrei orðið og það er grundvallaratriði í rannsókn sem er gerð hjá lögreglu og ákæruvaldinu,“ sagði Björgvin. „Mér fannst viðbrögðin harkaleg, sérstaklega af því að þau voru byggð á misskilningi. Brotaþoli getur aldrei borið ábyrgð á ofbeldisverknaði – kynferðislegri misneytingu eða nauðgun.“

Ýtarlega er rætt við Björgvin Björgvinsson í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert