Askan bætir uppskeruna

Þórarinn Ólafsson í Drangshlið við uppskerustörf.
Þórarinn Ólafsson í Drangshlið við uppskerustörf. mbl.is/Guðmundur Jónsson

Askan úr Eyjafjallajökli virðist hafa góð áhrif á uppskeru korns undir Eyjafjöllum og víðar í Rangárþingi. Þórarinn Ólafsson, kornbóndi í Drangshlíð, segir að uppskera af akri heima við bæ sé ótrúlega góð, þótt sáð hafi verið seint.

Sáð var í akurinn í Drangshlíð þriðja árið í röð. Venjulega fer að draga úr uppskeru, á þriðja ári. Svo er ekki nú, lengi var mikið grænt í akrinum og útlit er nú fyrir uppskeru eins og á fyrsta ári eftir hvíld akurs.

Íslenskir bændur telja gott þegar 19-20 korn eru í axinu. „Nú erum við að sjá 26-28 korn í axi á þessum akri, en að vísu minna í sendnum jarðvegi. Ég skoðaði akra í Danmörku og Þýskalandi fyrir tveimur árum. Þar var algengt að finna 23 kort í axinu“, segir Þórarinn.

Sumarið hefur verið hlýtt og það hjálpar til við kornvöxtinn. Þórarinn vill þó ekki líta framhjá öskunni úr Eyjafjallajökli sem féll á þessum slóðum í vor. Hann telur greinilegt að hún skapi góð skilyrði fyrir plönturnar.

Þórarinn er þessa dagana að þreskja fyrir svínabændur í Laxárdal, á ökrum þeirra í Gunnarsholti. Hann segir að ágætis uppskera sé þar eins og annars staðar.

Rok og rigningar hafa fellt kornið sums staðar. Þórarinn segir að erfiðara verði að þreskja slíka akra en það ætti að hafast. Hann segir of snemmt að segja til um uppskeru, enn geti ýmislegt komið upp á og uppskeran ekki komin í hús. Ef næsta vika verður góð, eins og útlit er fyrir næstu daga, komist menn töluvert á veg með uppskerustörf.

Búa sig undir uppskeruhátíð

Góð uppskera er hjá kornbændum í Hrunamannahreppi, að sögn Sigurðar Ágústssonar bóndi sem rekur þurrkstöð í Birtingaholti. Hann telur að uppskeran geti verið um 4 tonn af þurru korni af hverjum hektara, en þó aðeins misjöfn á milli akra.

Kornið er meira þroskað en á sama tíma undanfarin ár. Tíðin er með eindæmum góð, eins og í júlí. „Það frystir ekki einu sinni á nóttunni þótt það séu norðurljós,“ segir hann.

Ekki varð mikið tjón á kornökrum í uppsveitum Árnessýslu í rokinu í vikunni, einhver rýrnun í sumum tegundum þar sem stönglarnir brotnuðu.

Uppskerustörf eru ekki hálfnuð hjá kornbændum í Hrunamannahreppi. Þeir eru þó byrjaðir að búa sig undir uppskeruhátíðina Matarkistuna sem haldin verður á Flúðum um helgina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert