Takmörkuð hætta af öskunni

Eyjafjallajökull í ham.
Eyjafjallajökull í ham. Ragnar Axelsson

Hlutfall agna í öskusýnum af gjóskufallinu frá Eyjafjallajökli sem var safnað á Íslandi og eru nógu smáar til að komast inn í lungun var allt að 26%, að því er fram kemur í nýrri breskri rannsókn. Hlutfall hættulegra kísilsteinda var hins við skekkjumörk, að sögn vísindakonunnar dr. Claire Horwell.

Niðurstöðurnar eru birtar á vef stofnunarinnar The International Volcanic Health Hazard Network en nálgast má skýrsluna þar sem niðurstöðurnar eru birtar hér.

Agnirnar sem eru undir 10 míkrómetrum að breidd eru flokkaðar sem svifryk en sem kunnugt er fór magn svifryks nokkrum sinnum yfir hættumörk vegna gossins.

Að sögn dr. Horwell var hlutfall svo smárra agna á bilinu 4-26% í sýnum sem tekin voru til rannsóknar úr öskunni. Hlutfall agna sem var allt að 15 míkrómetrar í þvermál var hins vegar frá 5-34% en hún segir agnir af þeirri stærð nógu smáar til að komast inn fyrir nefið í öndunarveginum en of stórar til að fara alla leið niður í lungun.

Fer eftir sýnum 

Hlutfallið var því mismikið og fór það eftir sýnum, munur sem dr. Horwell segir skýrast af mismunandi aðstæðum í gosrásinni þá daga sem sýnataka fór fram. Suma daga hafi sundrun kvikunnar verið öflug og hlutfall agnanna hærra en að sama skapi lægra þá daga sem eldfjallið lét minna yfir sér.

„Ef sýnataka fer fram í talsverðri fjarlægð frá eldfjallinu er tilhneigingin sú að hlutfall fínni ösku sé hærra því þyngri agnir falla gjarnan til jarðar í hlíðum þess. Munurinn er líklega ekki mikill í nokkurra kílómetra fjarlægð frá eldfjallinu. Þetta er spurning um tugi eða hundruð kílómetra. Því var askan sem barst til Evrópu miklu mun fínni en sú sem féll til jarðar við rætur eldfjallsins.“

Hvað snerti hlutfall agnanna í öskuskýinu sem barst til Evrópu vill dr. Horwell árétta að það fari eftir flóknum, samverkandi þáttum. Hitt sé ljóst að ekki var nóg af smáum ögnum í öskunni í Bretlandi, svo dæmi sé tekið, til að hætta stafaði af. Þetta komi meðal annars fram í því að erfitt hafi verið að afla sýna í ösku, enda hafi hún verið mjög dreifð í andrúmsloftinu.

Á hinn bóginn sé mikilvægt að fram fari heilsufarsrannsókn á áhrifum mengunarinnar á Íslandi.

Geta ert öndunarfærin

Aðspurð hvort íslenskum almenningi hafi stafað hætta af öskurykinu sem rýkur upp á þurrum vindasömum dögum svarar dr. Horwell, sem er einn fremsti sérfræðingur heims á þessu sviði, því til að hættan sé metin allt frá því að vera lítil til miðlungs þá daga sem magn ryksins í andrúmsloftinu náði hámarki. Þetta hættustig geti valdið ertingu í öndunarfærum, þá sérstaklega hjá einstaklingum með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma. Hún ítrekar að líkur á alvarlegum sjúkdómum, á borð við lungnakrabbamein, í öndunarfærum séu afar litlar, vegna ryksins, jafnvel þótt einstaklingar séu útsettir fyrir menguninni svo mánuðum skipti.

Því hafi hættan af rykmenguninni í Reykjavík í sumar verið frá því að vera lítil og miðlungs, miðað við aðstæður. Engu að síður beri einstaklingum með undirliggjandi sjúkdóma að gæta varúðar þegar slík mengun nái hámarki. Sú staða geti komið upp að þeir þurfi að ráðfæra sig við lækni. Einstaklingar sem ekki glími við öndunarfærasjúkdóma hafi átt að komast hjá neikvæðum áhrifum, ef hugsanleg erting í öndunarfærum er frátalin. 

Skoða rykagnirnar

„Á síðustu árum höfum við rannsakað ösku frá eldfjöllum. Við skoðum rykagnirnar og reynum að skera úr um hvort þær kunni að hafa neikvæð áhrif á heilsufar með því að valda óþægingum í lungum. Við mælum til dæmis stærð agnanna því ef þær eru of stórar til að komast niður í lungun má útiloka að þær geti haft slík áhrif.“

Dr. Horwell segir að vegna fyrri rannsókna hafi verið hægt að bregðast skjótt við og greina öskufallið víðsvegar um Ísland. Niðurstaðan hafi sem fyrr segir verið sú að hluti agnanna var nógu smár til að komast ofan í lungun.

Lítið af hættumlegum kísilsteinda

Dr. Horwell bendir í framhaldinu á að magn kísilsteinda í öskurykinu hafi verið undir 3% en til samanburðar séu skekkjumörk miðuð við 1-3%.

Slíkir kristallar geti verið skaðlegir öndunarveginum og sú staðreynd að hlutfall þeirra í öskunni var hverfandi því hluti af þeirri almennu niðurstöðu að hættan af öskurykinu hafi verið óveruleg.

Dr. Horwell er sem fyrr segir í hópi leiðandi sérfræðinga á þessu sviði en hún rannsakaði á sínum tíma dreifingu ösku frá eldfjallinu Soufrière Hills á eyjunni Montserrat á Karíbahafi en þar hefur gosið með hléum frá því árið 1995.

Hún segir að þar hafi íbúarnir, sem eru innan við 5.000, verið útsettir fyrir langvarandi rykmengun af völdum gosösku.

Þrátt fyrir það bendi niðurstöður til óverulegra heilsufarslegra áhrifa á almenning þótt hún undirstriki að koma þurfi til ítarlegri heilsufarsrannsóknir til að skera endanlega úr um álitamál í þessu efni.

Dr. Claire Horwell
Dr. Claire Horwell
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert