Svandís áfrýjar dómi

Skipulag Flóahrepps gerir ráð fyrir að Urriðafoss verði virkjaður.
Skipulag Flóahrepps gerir ráð fyrir að Urriðafoss verði virkjaður. mbl.is/Ragnar Axelsson

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hefur ákveðið að áfrýja dómi héraðsdóms um aðalskipulag í Flóahreppi til Hæstaréttar. Hún segir þær leiðbeiningar sem komi fram í niðurstöðum héraðsdóms um hverjir geti tekið þátt í að greiða kostnað við aðalskipulag séu of óljósar og þörf sé á skýrari línum. Hún mun krefjast þess að Hæstiréttur staðfesti rétt hennar til að neita að staðfesta skipulagið.

Svandís neitaði á sínum tíma að staðfesta aðalskipulag Flóahrepps á þeirri forsendu að Landsvirkjun hefði tekið þátt í að greiða kostnað við skipulagið, en skipulagið gerir ráð fyrir Urriðafossvirkjun. Sveitarfélagið ákvað að höfða mál gegn ráðherra og niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur var að ráðherra hefði ekki haft heimild til að synja aðalskipulagi Flóahrepps staðfestingar. Framkvæmdaaðilum, eins og Landsvirkjun, væri ekki óheimilt að taka þátt í kostnaði við aðalskipulag sveitarfélaga.

Í samtali við mbl.is sagði Svandís að héraðsdómur hefði byggt á að þar sem í lögunum væri ekki tekið fram hverjir mættu ekki greiða fyrir skipulagsvinnu, þyrfti að leggja mat á slíkt hverju sinni. „Það er mín skoðun að þessi veika leiðsögn héraðsdóms sé ekki nóg, hvorki fyrir sveitarfélög né skipulagsyfirvöld,“ sagði hún. Lögin væru augljóslega ekki nógu skýr og ef skýra þyrfti löggjöfina gæti verið gott að fá leiðsögn dómstóla. „Þannig að þetta snýst nú ekki um tap eða sigur í mínum huga, heldur að við búum að við búum þessum mikilvæga málaflokki, skipulagsmálum, nægilega skýran lagaramma þannig að allir búi við réttaröryggi, bæði sveitarfélög og önnur stjórnvöld.“

Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert