Staðfestir visku fjöldans

Jafnrétti, lýðræði, mannréttindi, virðing og ábyrgð er meðal helstu gilda …
Jafnrétti, lýðræði, mannréttindi, virðing og ábyrgð er meðal helstu gilda sem til umræðu voru í morgun. Þjóðfundur

„Aðferðin sem er notuð á þessum fundi er sú að laða fram visku fjöldans. Í raun og veru staðfestir þessi þjóðfundur visku síðasta þjóðfundar með mjög afgerandi hætti, kannski meira en maður bjóst við,“ segir Gunnar Hersveinn.

Gunnar er höfundur bókarinnar Þjóðgildin, sem fjallar um þjóðfundinn sem haldinn var í nóvember í fyrra og þau gildi sem þar voru efst á blaði.

Gunnar segir þau gildi sem þátttakendur á þjóðfundi um nýja stjórnarskrá, sem fram fór í dag í Laugardalshöll, séu í meginatriðum þau sömu og fundarmenn komust að samkomulagi um í fyrra.

„Á fyrri fundinum var spurt: Hvaða gildi finnst þér skipta mestu máli? Þannig að fólk leitaði í eigin barm að þeim gildum sem það vildi efla á Íslandi, og fannst skorta á. Þess vegna var kannski heiðarleiki efstur á blaði þá, af því fólk fannst skorta heiðarleika,“ segir Gunnar

Þau gildi sem samkomulag náðist um á fundinum 2009 voru jafnrétti, lýðræði, réttlæti, virðing, heiðarleiki, frelsi, ábyrgð og mannréttindi. Þessi gildi eru keimlík þeim sem fundurinn í dag hefur valið sem grundvallargildi, sem hafa ber til hliðsjónar við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

„Núna er náttúrulega hugur fundarmanna á stjórnarskrá. Þessi fundur ætti ekki að vera eins almennur. Þegar spurningin er borin upp er fólk að hugsa meira um leiðarljós fyrir nýja stjórnarskrá.

Það má segja að gildin sem eru valin núna, hafi öll verið efst á blaði á síðasta fundi. Mannréttindi voru líka mjög ofarlega á síðasta fundi. Það er eins og þetta segi okkur að þegar svona stór hópur kemur saman og reynir að finna gildi, þá virðist það koma fram að þessi gildi eru dýrmætust.“

- En er ekki hætt við því, þegar svona margir koma saman, að útkoman verði einhvers konar lægsti samnefnari skoðana þeirra sem þátt taka?

„Það má segja að þegar spurt er bara um orð, hugsjónir eða grunngildi, þá sé mjög auðvelt að vera sammála um orðin, nafnið. En síðan tekur við samtalið um aðferð. Hvernig eigum við að festa ábyrgð í sessi á Íslandi, til dæmis? Hvaða aðferð eigum við að nota, svo fólk komi sér ekki undan ábyrgðinni? Þá flækist málið.“

Gunnar Hersveinn, heimspekingur og rithöfundur.
Gunnar Hersveinn, heimspekingur og rithöfundur. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert