Snjógirðingarnar sönnuðu sig

Um 4.000 manns voru í Bláfjöllum í gær í frábæru …
Um 4.000 manns voru í Bláfjöllum í gær í frábæru veðri. Þó voru alls ekki allar lyftur opnar. mbl.is/Golli

Um 6.000 manns voru á skíðum í Bláfjöllum um helgina, þar af renndu um 4.000 manns sér í gær í frábæru veðri. Líklega verður lokað í dag en veðurspá lofar góðu fyrir næstu daga. Nýjar snjógirðingar og sléttari brekkur gegndu lykilhlutverki í að hægt var að opna svona snemma.

Nú blæs af krafti í Bláfjöllum og skyggni er lítið sem ekkert. Því verður væntanlega lokað í dag. Veðrið hefur sem sagt tekið stakkaskiptum frá því í gær þegar ungir og aldnir renndu sér í logni og sólskini. Magnús Árnason, framkvæmdastjóri Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, segir að  feikigóð stemning hafi verið í fjöllunum í gær. Þeir sem ekki voru að renna sér spókuðu sig í góða veðrinu. 

 Fyrstu æfingar voru haldnar í Bláfjöllum síðastliðinn þriðjudag, 9. nóvember, og svæðið var opnað fyrir almenning tveimur dögum síðar. Magnús hefur spurt sér fróðari menn hvenær síðast var opnað svo snemma en fátt hefur orðið um svör. „Menn segja kannski nítjánhundruðáttatíuogeitthvað en hafa ekki getað nefnt ákveðna dagsetningu,“ segir hann. Það séu í það minnsta meira en 20 ár síðan síðast var opnað svo snemma. 

Fyrir tveimur árum voru settar nýjar snjógirðingar í Bláfjöllum og brekkur sléttaðar, stórgrýti fjarlægt og svo framvegis. Magnús segir að þessar framkvæmdir hafi verið forsenda þess að hægt var að hafa opið um helgina. Sem dæmi um áhrif breytinganna nefnir hann að áður hafi Kóngsgilið opnað fyrst en nú hafi verið meiri snjór í Öxlinni en áður. Reyndar hafi snjórinn einnig dugað fyrir Kóngsgilið. „Það þarf miklu minni snjó núna til að geta opnað,“ segir Magnús. 

Útlit er fyrir snjókomu í Bláfjöllum í kvöld, í það minnsta slyddu. Magnús segir að ef snjórinn sem falli í kvöld verði mjög blautur komi til greina að hafa lokað á morgun til að leyfa snjónum að taka sig. Þannig dugi snjórinn lengur.

Lítillega á að hlána á morgun en síðan spáir kólnandi. Að óbreyttu stefnir því í að áfram verði skíðafæri í Bláfjöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert