60 þúsund heimili njóta góðs af

Frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar, lífeyrissjóðanna og annarra sem koma að gerð …
Frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar, lífeyrissjóðanna og annarra sem koma að gerð samkomulagsins um skuldavanda heimilanna mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Um 60 þúsund heimila munu njóta góðs af þeim aðgerðum, sem samkomulag hefur orðið um á milli stjórnvalda, lífeyrissjóða og fjármálastofnana. Áætlað er að aðgerðirnar kosti um 100 milljarða króna, þar af lenda 2/3 á bönkum og fjármálastofnunum og þriðjungur á lífeyrissjóðum og Íbúðalánasjóði.

„Hér er miklum og merkum áfanga náð sem hefur mikið gildi félagslega og þjóðhagslega," sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. Hún sagði að þetta styddi við hagvöxt í landinu og verið væri að fara í skuldahreinsun, sem skipti miklu máli við endurreisn efnahagskerfisins.

Skrifað var undir samkomulagið á fundi í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Alls standa 14 aðilar að samkomulaginu. Jóhanna sagði, að með þessum aðgerðum væri settur punktur aftan við sérstakar aðgerðir, sem stjórnvöld standa fyrir vegna skuldavanda og erfiðleika, sem rekja megi til bankahrunsins.

Fram kom hjá Jóhönnu, að 72 þúsund heimili á Íslandi væru með fasteignaskuldir og samkomulagið tryggði að um 60 þúsund þeirra heimila nytu góðs af.

Meðal aðgerðanna er nýtt úrræði, sem mótað verður til að greiða niður vaxtakostnað vegna íbúðarhúsnæðis. Um er að ræða almenna niðurgreiðslu, óháða tekjum, sem fellur niður þegar hrein eign skuldara er umfram tiltekin há mörk. Segja stjórnvöld að  greiðslubyrði heimila muni lækka við þetta um allt að 200-300 þúsund krónur á ári.  Um er að ræða tímabundna aðgerð á árunum 2011 og 2012 og kostar hún um 6 milljarða hvort ár. Ríkisstjórnin ætlar í samstarfi við aðila samninulagsins leita leiða til að fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir fjármagni þessi útgjöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert