Fyrirtæki ekki skaðabótaskylt vegna óhapps

mbl.is/Kristinn

Fyrirtækið Smíðandi ehf. hefur verið sýknað í Hæstarétti af kröfu manns sem slasaðist við störf hjá fyrirtækinu, en hann krafðist átta milljóna kr. í skaðabætur. Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu.

Segir í dómi Hæstaréttar að maðurinn hafi slasast alvarlega á auga þegar hann fékk járnflís í það við vinnu sína á Selfossi í maí 2005. Slysið varð við tilraun mannsins til að losa hólk, sem var ryðgaður fastur, af vél sem notuð var til að beygja steypustyrktarjárn.

Maðurinn krafði Smíðanda um bætur vegna þess líkamstjóns sem hann hlaut við slysið. Reisti hann kröfu sína einkum á því að hann hafi fengið ófullnægjandi tæki til verksins og verkstjórn verið áfátt, en hann hafi ekki fengið leiðbeiningar um hvernig verkið skyldi unnið. Þá hafi öryggisgleraugu ekki verið tiltæk á vinnustaðnum.

Ekki var fallist á framangreint og talið að maðurinn og vinnufélagar hans hafi sjálfir tekið ákvörðun um hvaða aðferðir og hvernig verkfæri þeir skyldu nota til að losa hólkinn.

Maðurinn hafi sýnt eðlilega varúð þótt sú aðferð sem hann hafi beitt hafi leitt til slyssins sem varð með óútskýrðum hætti.

Því var talið að óhapp hafi valdið slysinu og það yrði ekki rekið til saknæmrar háttsemi fyrirtækisins sem það bæri skaðabótaábyrgð á. Smíðandi var því sýknaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert