Lögreglu tilkynnt um vopnaða menn

Lögreglan sinnir ýmsum verkefnum.
Lögreglan sinnir ýmsum verkefnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglu var tilkynnt um líkamsárás utan við skemmtistað. Gerandi fannst á vettvangi og var handtekinn vegna málsins. Hægt var að klára málið á vettvangi.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Það var lögreglustöð eitt sem sinnti málinu, en hún sinnir verkefnum í stórum hluta borgarinnar og á Seltjarnarnesi.

Lögreglustöð þrjú, sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti, sinnti einnig tilkynningu vegna slagsmála utan við skemmtistað þar sem tekið var fram að menn væru að slást með vopnum.

„Málið er í rannsókn en miðað við upplýsingar þegar þetta er ritað slasaðist enginn,“ segir í dagbókinni.

Innbrot í heimhús

Þá var lögreglu jafnframt tilkynnt um innbrot í heimahús. Lögreglustöð eitt sinnti málinu, en það er nú til rannsóknar.

Lögreglustöð tvö, sem sinnir verkefnum í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi, var kölluð til vegna þjófnaðar í verslun.

Lögreglustöð fjögur, sem sinnir verkefnum í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ, var tilkynnt um eignaspjöll þar sem búið var að valda skemmdum með spreybrúsa. Ekki koma fram nánari upplýsingar um málið í dagbókinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert