Molnað getur undan metnaði nemenda

Hætt er við því að nemendur megi ekki við því að missa úr námi þegar þeir fara í leyfi frá skólanum í lengri tíma, t.a.m. til að fara í sólarlandarferðir.

Sérstaklega á þetta við um nemendur sem ekki eru sterkir námsmenn en mjög hefur færst í vöxt að nemendur hverfi frá skóla í lengri tíma vegna fría með foreldrum. 

Svo segir Linda Heiðarsóttir, aðstoðarskólastjóri í Réttarholtsskóla. Hún segir það tíðrætt meðal kennara að nemendur geti dregist aftur úr samnemendum við það eitt að fara í frí. Þá sé vert að taka umræðu um það hversu auðvelt það er að fá frí úr skóla á Íslandi.  

„Við erum með mjög sveigjanlegt kerfi þegar kemur að öllum leyfum fyrir börnin. Raunar fá nánast allir leyfi. Þetta er ólíkt því sem gerist víða annars staðar. Eins og í Frakklandi og Englandi þar sem ekki er auðsótt á fá leyfi fyrir börn úr skóla og vísað er í skólaskylduna,“ segir Linda.

Foreldrar undirriti ábyrgðarskjal 

Hún segir að skólum sé í lófa lagið að upplýsa foreldra um það hvaða afleiðingar það getur haft að taka nemendur úr skóla í tiltekinn tíma. 

„Við í skólasamfélaginu teljum mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um ábyrgð og taki samtal við skólann áður en farið er í leyfi svo hægt sé að halda náminu að barninu á meðan það er í burtu,“ segir Linda. 

Í grunnskólalögum er skýrt tekið fram að foreldrar beri ábyrgð á námi barna sinna. 

„Við höfum látið foreldra undirrita að þeir beri ábyrgð á meðan börnin eru í leyfi,“ segir Linda. 

Hún vill ekki tala um þetta sem stórt vandamál en ítrekar að mikilvægt sé að foreldrar séu meðvitir um sína ábyrgð í þessu samhengi. 

„Það er allt í lagi fyrir kennara að benda á það að í sumum tilvikum er ekki gott fyrir nemanda að fara frá náminu,“ segir Linda.  

Æfingar á skólatíma 

Þá segir Linda umhugsunarvert að nemendur séu reglulega kallaðir úr skólanum til afreks íþróttastarfs eins og t.a.m. á vettvangi KSÍ þar sem æfingar eru gjarnan hafðar á skólatíma. 

Linda segir að slíkir hlutir hljómi kannski léttvægir en smátt og smátt geti molnað undan virðingu fyrir menntakerfinu ef þróunin heldur áfram. 

„En af sama skapi er skuldinni gjarnan skellt á skólana þegar árangur er ekki eftir væntingum,“ segir Linda. 

„Ef viðmótið er alltaf það að í lagi sé að sleppa skóladegi eða hluta úr honum þá getur molnað undan metnaði nemenda þegar kemur að skólanum,“ segir Linda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert