Börn af erlendum uppruna síður í leikskóla

Börnum af erlendum uppruna fækkar hlutfallslega í leikskólum.
Börnum af erlendum uppruna fækkar hlutfallslega í leikskólum. Ljósmynd/Colourbox

Börn innflytjenda fara síður í leikskóla en íslenskir jafnaldrar þeirra og eru yfirleitt eldri þegar þau byrja. Síðustu ár hefur þeim börnum innflytjenda sem fara í leikskóla hlutfallslega fækkað og þykir það áhyggjuefni, að fram kemur í nýrri skýrslu OECD um málefni innflytjenda í samhengi við sögulega fjölgun hér á landi síðustu áratugi.

Mælt er með sértækum aðgerðum til að sporna við þessari þróun og jafnframt styðja við starfsfólk í leikskólum með námsefni og símenntun.

Niðurstöðurnar sláandi

Skýrslan var kynnt á fundi skóla- og frístundaráðs á mánudag og voru niðurstöðurnar sagðar sláandi. Meðal annars vegna stöðu barna af erlendum uppruna í skólakerfinu, en námsárangur þeirra er slakari en íslenskra jafnaldra og þau eru líklegri til að flosna uppúr námi síðar meir.

Virðist íslenskukunnátta þeirra hafa þar mikið að segja og vísað var í niðurstöður PISA-könnunarinnar. Þar fékk helmingur barna innflytjenda það sem telst til slakrar niðurstöðu, og voru langt fyrir neðan meðaltal OECD. Kom Ísland næst verst allra OECD-ríkjanna, en  aðeins Mexíkó kom verr út.

74% 3 ára á leikskóla

Í skýrslunni er hamrað á mikilvægi þess að börn af erlendum uppruna heyri íslensku í umhverfi sínu og læri og nái tökum á íslensku strax á leikskólaaldri. Það þykir því áhyggjuefni ef foreldrar þeirra barna senda þau síður í leikskóla.

Árið 2022 voru 98% íslenskra 3 ára barna í leikskóla á meðan aðeins 74% 3 ára barna af erlendum uppruna, fædd annars staðar en á Íslandi, voru í leikskóla. Hlutfallið var hærra í hópi barna af erlendum uppruna, fædd hér á landi, eða 87%. Sama ár voru 99% íslenskra 5 ára barna í leikskóla en 83% barna af erlendum uppruna.

Ein skýringin á því af hverju foreldrar barna af erlendum uppruna kjósa síður að senda þau í leikskóla er talin vera heimgreiðslur nokkurra sveitarfélaga. En Kópavogur, Hafnarfjörður og Akureyri eru meðal þeirra sveitarfélaga sem bjóða foreldrum barna sem ekki hafa fengið leikskólapláss upp á slíkar heimgreiðslur. 

Vara við heimgreiðslum

Skýrsluhöfundar vara við slíkum aðgerðum og vísa til neikvæðrar reynslu í nágrannaríkjunum, meðal annars í Svíþjóð og Noregi. Þar sem heimgreiðslur höfðu neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku mæðra. Vísað er til þess að þess að áhrifin séu enn meiri þegar kemur að mæðrum af erlendum uppruna, þar sem þær hafi gjarnan lægri tekjur og séu enn líklegri til að hætta vinna til að vera heima og sjá um börnin.

Einnig er bent á að hækkun leikskólagjalda hafi neikvæð áhrif en 17 af 20 stærstu sveitarfélögum landsins hækkuðu leikskólagjöld á milli ára.

Í skýrslunni er jafnframt bent á að 44 prósent barna innflytjenda búi í Reykjavík en þau njóti ekki framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, líkt og börn sem búa í öðrum sveitarfélögum. Fulltrúar meirihlutans í skóla- og frístundaráði sögðu þetta sérstaklega mikilvægt atriði.

„Fjárfestum í kennurum“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu yfir áhyggjum af stöðu barna af erlendum uppruna, enda leiddi skýrslan í ljós að lesskilningur þeirra stæði íslenskum börnum langt að baki. Mikilvægt væri að taka niðurstöðurnar alvarlega og bæta aðgengi barna í Reykjavík að leikskólum, sérstaklega barna af erlendum uppruna.

„Leikskólinn er lykilbreyta í því að auka málörvun og skilning barna og bæta stöðu þeirra í skólaumhverfinu,“ segir í bókun Sjálfstæðismanna.

Áheyrnarfulltrúi starfsfólks í leikskólum lagði einnig fram bókun um mikilvægi þess að efla málörvun í leikskólum fyrir öll börn. 

„Það gerum við m.a. með því ráða fleiri kennara til kennslu í leikskólum borgarinnar. Reykjavíkurborg á að leita allra leiða til að vera fyrirmynd annarra sveitarfélaga í leikskólastarfi, þannig fáum við fleiri kennara til starfa. Fjárfestum í kennurum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert