Sláandi lítill munur á fylgi Trump og Harris

Kamala Harris varaforseti leiðir áfram í könnunum á landsvísu í Bandaríkjunum og er með naumt forskot þegar litið er til kjörmannakerfisins. Í fimm af síðustu níu könnunum í Pennsylvaníuríki eru Harris og mótframbjóðandinn Donald Trump með jafn mikið fylgi.

Þetta kemur fram í yfirferð Hermanns Nökkva Gunnarssonar, blaðamanns á mbl.is og Morgunblaðinu, í Spursmálum í dag.

Harris hefur tveggja prósentustiga forskot á landsvísu samkvæmt samantekt RealClearPolitics og hafa litlar breytingar orðið á því að undanförnu.

Hægt er að hlusta og horfa á Spurs­mál á Spotify, YouTu­be og öll­um helstu hlaðvarpsveit­um.

Áfram er allt í járnum í baráttunni um Hvíta húsið.
Áfram er allt í járnum í baráttunni um Hvíta húsið. Samsett mynd/AFP/Joseph Prezioso/Peter Zay

Allt í járnum í Pennsylvaníu

Hermann minntist á það að frambjóðendur hefðu varið miklum tíma í Pennsylvaníu að undanförnu enda um að ræða það sveifluríki sem er með flesta kjörmenn.

Harris er þar með 0,6 prósentustiga forskot og er það byggt á meðaltali níu kannanna.

Í fimm af síðustu níu könnunum eru báðir frambjóðendur að mælast með jafn mikið fylgi. Trump leiðir í tveimur könnunum og Harris leiðir í tveimur könnunum.

Hér má sjá nýjustu kannanir úr Pennsylvaníu.
Hér má sjá nýjustu kannanir úr Pennsylvaníu. Tölvuteiknuð mynd/Hallur/RealClearPolitics

Trump að styrkja sig í Georgíu

Ef litið er til ríkjanna þá fengi Harris 276 kjörmenn en Trump 262 kjörmenn og Harris myndi þar með vinna kosningarnar miðað við mælingar.

Munurinn er þó sláandi lítill. Í fjórum af sjö sveifluríkjum munar innan við prósentustigi á frambjóðendum samkvæmt mælingum.

Trump hefur verið að styrkja sig í Georgíu og er þar með rúmlega tveggja prósentustiga forskot. Í Arizona er hann með 1,6 prósentustiga forskot.

Staðan í kjörmannakerfinu að svo stöddu miðað við mælingar.
Staðan í kjörmannakerfinu að svo stöddu miðað við mælingar. Skjáskot/RealClearPolitics

Harris heldur dampi í Michigan

Á sama tíma heldur Harris dampi í Michigan og mælist með hátt í tveggja prósentustiga forskot.

Trump leiðir naumlega í Norður-Karólínu en Harris leiðir naumlega í Wisconsin og Nevada.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, sat einnig fyr­ir svör­um í nýj­asta þætti Spurs­mála. 

Hér má horfa á þáttinn í heild sinni:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert