Arnar Þór stofnar nýjan stjórnmálaflokk

Arnar Þór Jónsson.
Arnar Þór Jónsson. mbl.is/Eyþór

Arn­ar Þór Jóns­son, lögmaður og fyrr­ver­andi for­setafram­bjóðandi, hefur stofnað nýjan stjórnmálaflokk sem nefnist Lýðræðisflokkurinn – samtök um sjálfsákvörðunarrétt. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arnari Þór og segir að flokkurinn sé stofnaður í þeim tilgangi „að vinna gegn þróun í átt til ofstjórnar og óstjórnar sem er að knésetja íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki“.

Í tilkynningunni segir að á síðustu vikum hafi fjölmargir hvatt Arnar Þór til að stofna stjórnmálaflokk til að freista þess að snúa þjóðfélaginu til betri vegar. 

Arnar Þór hlaut kjör sem varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins árið 2021 en sagði sig úr flokknum er hann tilkynnti forsetaframboð sitt í janúar. Hann hlaut 5,1% fylgi í kosningunum í júní. 

Í vikunni var síðan greint frá því að viðræður Arnars Þórs við Miðflokkinn hefðu fjarað út og engu skilað.

Í tilkynningu Arnars Þórs um nýja flokkinn segir: „Lýðræðisflokkurinn snýst um að efla lýðræði, frelsi og sjálfsákvörðunarrétt. Þessi nýju stjórnmálasamtök verða byggð á heiðarleika og þeim gildum sem best hafa reynst. Ég er tilbúinn að fara í þessa baráttu með öllu því hugrakka og velviljaða fólki sem vill heyja hana með mér af heilu hjarta, með réttsýni og visku að leiðarljósi, fyrir landið okkar, Ísland.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert