Hlupu frá Þingvöllum til Vesturbæjarlaugar

Á síðustu tuttugu árum hefur félagsmönnum fjölgað úr fimm í …
Á síðustu tuttugu árum hefur félagsmönnum fjölgað úr fimm í 255. Ljósmynd/Aðsend

Félag 100 km hlaupara á Íslandi efndi til Þingstaðahlaups frá Þingvöllum að Alþingishúsinu í Reykjavík og að Vesturbæjarlaug í dag.

Ágúst Kvaran, einn stofnenda félagsins, segir að hlaupið hafi lagst af eftir hlaupið árið 2005 en eftir hlaup dagsins í dag sé félagið að skoða hvort að endurvekja ætti hlaupið á næstu árum.

„Ég veit ekki hver framtíðin verður, en við vorum að ræða þetta og hvort þetta ætti að verða árlegur viðburður,“ segir hann.

Efnt var til hlaupsins í tilefni tuttugu ára afmælis félagsins sem var stofnað í Vesturbæjarlaug 26. september árið 2004 að loknu Þingstaðahlaupi. Fyrsta Þingstaðahlaupið fór fram í september árið 1996 og fór fram að hausti ár hvert fram til ársins 2005.

Ellefu hlupu frá upphafi til enda

Um er að ræða 50 km leið frá Þingvöllum um þjóðveginn yfir Mosfellsheiðina að Alþingishúsinu og áfram í Vesturbæjarlaug.

Ágúst segir um ellefu manns hafa hlaupið vegalengdina frá upphafi til enda en að margir hafi ákveðið að hlaupa einungis hluta leiðarinnar.

„Þetta er félagshlaup ekki keppnishlaup og margir sem hlupu í dag litu á þetta sem æfingahlaup fyrir eitthvað erlendis,“ segir hann.

Úr fimm í 255

Fimm manns komu að stofnun Félags 100 km hlaupara á Íslandi árið 2004 og áttu það sameiginlegt að hafa hlaupið 100 km keppnishlaup, einir Íslendinga.

Félagið er opið Íslendingum sem hafa lokið þátttöku í viðurkenndu og opinberu 100 km keppnishlaupi eða lengra hlaupi.

Á síðustu tuttugu árum hefur félagsmönnum fjölgað úr fimm í 255 og þegar blaðamaður náði tali af Ágústi voru hlauparar og félagsmenn að gæða sér á köku að hlaupi loknu og á leið í pottinn í Vesturbæjarlaug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert