Mætti með stungusár í brjóstkassa á bráðamóttöku

Bráðamóttaka Landspítalans.
Bráðamóttaka Landspítalans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einstaklingur kom á bráðamóttöku Landspítala og tilkynnti að hann hefði verið stunginn í brjóstkassann. 

Svo segir í dagbók lögreglu á höfuðborgarsvæðinu. Til viðbótar er einungis nefnt að málið sé í rannsókn. 

Talsvert var um að vera hjá lögreglunni í nótt. Rétt fyrir klukkan hálf sjö gistu tólf í fangaklefa og var 91 mál bókað í kerfi lögreglu. 

Neitaði að yfirgefa lögreglustöðina

Meðal annars óskuðu dyraverðir á skemmtistað í miðbænum eftir aðstoð lögreglu vegna ölvaðs einstaklings sem neitaði að yfirgefa staðinn.

Þegar lögreglumenn komu á vettvang neitaði einstaklingurinn að gefa upp hver hann væri og var hann því handtekinn og fluttur á lögreglustöð.

Á lögreglustöðinni gaf einstaklingurinn upp hver hann væri og stóð þá til að leyfa honum að fara heim, en þá neitaði einstaklingurinn hins vegar að yfirgefa lögreglustöðina og var að lokum vistaður í fangaklefa.

Þá barst tilkynning um grunsamlegar mannaferðir við skóla þar sem einstaklingur með vasaljós gekk um.

Þegar lögregla kom á vettvang reyndist hinn grunsamlegi vera starfsmaður öryggisfyrirtækis að sinna eftirliti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert