Um það sem skiptir máli

Gréta Sigurjónsdóttir og Erla Ragnarsdóttir, báðar Dúkkulísur, hafa nú gefið …
Gréta Sigurjónsdóttir og Erla Ragnarsdóttir, báðar Dúkkulísur, hafa nú gefið út plötuna Lífið er ljóðið okkar. mbl.is/Ásdís

„Það er ekki laust við að við séum með smá fiðring í maganum,“ segir skólameistari Flensborgarskólans og Dúkkulísan Erla Ragnarsdóttir, en hún og Gréta Sigurjónsdóttir, einnig Dúkkulísa, bókakaffihúsaeigandi og tónlistarkennari, gáfu út hugljúfu plötuna Lífið er ljóðið okkar á föstudaginn.

Tónlistin alltaf nálæg

Á plötunni, sem kemur bæði út á vínyl og á Spotify, eru sex lög samin af þeim stöllum. Dúkkulísurnar, sem voru vinsælar á tíunda áratug síðustu aldar, hafa þó aldrei alveg lagt árar í bát og koma enn fram af og til.

„Tónlistin er alltaf nálægt okkur,“ segir Erla, sem er söngkona, en Gréta gítarleikari og textasmiðurinn.

„Gréta semur alla textana og er stórskáld og snillingur!“ segir Erla.

„Við sömdum lög og texta og fengum svo Guðmund Óskar Guðmundsson til að útsetja lögin og úr varð skapandi og nærandi ferli sem er svo dýrmætt,“ segir Erla og Gréta tekur undir það.

„Á plötunni leyfum við okkur að vera pínu dramatískar og mjúkar, sem er ekki endilega stíll Dúkkulísanna,“ segir Erla.

„Platan er mjög ljúf. Þegar maður er komin á þennan aldur semur maður öðruvísi texta. Mér finnst mikils virði þegar mikið er lagt í texta og finnst að lög og textar eiga að segja okkur eitthvað og snerti við okkur,“ segir Gréta.

Dreymir ekki um frægð og frama

„Þetta eru sex litlar sögur úr okkar reynsluheimi,“ segir Erla og nefnir að í textunum er fjallað um mannlegar tilfinningar, vináttu, ást og börnin þeirra.

Gréta og Erla skemmtu sér vel yfir samstarfinu.
Gréta og Erla skemmtu sér vel yfir samstarfinu.

Eruð þið miðaldra konur að tjá ykkur um alla ykkar visku?

Þær skellihlæja báðar tvær.

„Já, þetta er um allt sem skiptir máli í lífinu. Þetta er ein leið til þess,“ segir Erla.

Dreymir ykkur um frægð og frama?

„Nei! Bara alls ekki. Við erum önnum kafnar konur,“ segir Erla.

„Við erum ekkert að spá í því en það væri voða gaman ef einhver myndi hlusta. Þetta var svo skemmtilegt samstarf og hvað getur maður beðið um meira,“ segir Gréta.

„Nú fögnum við útgáfunni og njótum. Hvort það verða tónleikar í framtíðinni, það verður bara að koma í ljós“ segir Erla.

Ítarlegt viðtal er við Erlu og Grétu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert