Vélarbilun hjá Play riðlar vöktum slökkviliðsins

Upplýsingafulltrúi Play segir að búið sé að bjóða farþegum að …
Upplýsingafulltrúi Play segir að búið sé að bjóða farþegum að bóka sér gistingu í Prag á kostnað flugfélagsins og þeim boðið að fljúga með vélinni á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrettán slökkviliðsmenn eru fastir í Prag í Tékklandi eftir að flugfélagið Play aflýsti flugi sem átti að sækja þá í dag eftir skemmtiferð til Prag.

Nadine Guðrún Yanghi, upplýsingafulltrúi Play, segir í samtali við mbl.is að upp hafi komið vélarbilun í flugvélinni á Keflavíkurflugvelli og hún ekki talin flughæf til að sækja farþegana til Prag.

„Það er verið að laga vélina og það er seinkun um sólarhring, en hún flýgur út á morgun,“ segir hún.

Búið að redda vakt morgundagsins

Slökkviliðsmennirnir voru í Prag í fjögurra daga fríi með mökum.

Brynjar Þór Friðriksson, deildarstjóri á aðgerðasviði slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, segir að búið sé að skipuleggja vakt morgundagsins og að tveir slökkviliðsmenn hafi fundið leið aftur til Íslands.

„Tveir fundu sér einhverja leið heim með millilendingu, en hinir eru fastir úti,“ segir Brynjar.

Hann segir að búið sé að bjarga vakt morgundagsins að því gefnu að slökkviliðsmennirnir sem enn eru fastir úti skili sér heim fyrir kvöldvakt á morgun.

Tvær vélarbilanir á sama degi

Nadine segir að búið sé að bjóða farþegum að bóka sér gistingu í Prag á kostnað flugfélagsins og þeim boðið að fljúga með vélinni á morgun.

Þetta er annað flugið í dag sem Play hefur þurft að aflýsa. Vélarbilun í annarri flugvél flugfélagsins kom í veg fyrir flug vélarinnar til Feneyja í dag.

Hún segir engan fastan í Feneyjum sökum þessa, en vélin átti að fljúga út í dag og aftur heim á morgun.

„Hún átti að bíða í Feneyjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert