Segir Íslendinga of fljóta að grípa til enskunnar

Nauðsynlegt er að tala tungumálið til að auðvelda fólki að …
Nauðsynlegt er að tala tungumálið til að auðvelda fólki að ná tökum á því. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilvægt er að halda sig við íslenskuna og grípa ekki til enskunnar í samtali við fólk sem er að tileinka sér íslensku í fyrsta sinn. Nauðsynlegt er að styðja fólk af erlendum uppruna sem vill búa á Íslandi til framtíðar við að læra tungumálið til þess að það geti aðlagast íslensku samfélagi. 

Þetta segir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, í aðsendri grein í laugardagsblaði Morgunblaðsins. 

Hún segir móttöku barna og fullorðinna af erlendum uppruna vera stærsta verkefnið sem blasi við íslensku samfélagi. 

„Innflytjendum hefur fjölgað mikið undanfarið í Reykjavík og eru nú rúmlega 20% af íbúum og fjölgar stöðugt [...]. Íslenskukunnátta fólks af erlendum uppruna er lykillinn að farsæld og framgangi þeirra í þjóðfélaginu.“

Kolbrún Áslaugar- Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Kolbrún Áslaugar- Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins. mbl.is/Ágúst Ólíver

Íslenskukunnátta lykill að velsæld

Í greininni lýsir Kolbrún að í stefnu Reykjavíkurborgar eigi allir þeir sem eru með annað móðurmál en íslensku rétt á hagnýtum íslenskunámskeiðum. 

„Til að nemendur nái viðunandi tökum á tungumáli þarf námið að vera við hæfi og samfellt með tilheyrandi þjálfun við að tala tungumálið. Ekki er nóg að senda fólk á námskeið, heldur þurfa nemendur í íslensku að fá tækifæri til að spreyta sig í samtölum við íslenskumælandi fólk. Því miður grípa allt of margir ósjálfrátt og án mikillar hugsunar til enskunnar þegar talað er við fólk af erlendum uppruna sem hefur sest hér að.“

Þá segir hún að til þess að fólk af erlendum uppruna geti notið síns til fulls á Íslandi sé íslenskukunnátta lykill. Með því að ná góðum tökum á tungumálinu opnist fleiri möguleikar í starfi, fólki mun vegna betur í íslensku samfélagi sem og að samskipti við einstaklinga og stofnanir verði auðveldari. 

Nauðsyn að fjármagna úrræði sem eru til staðar

Kolbrún telur nauðsynlegt að fjármagna betur þau úrræði sem eru í boði til að aðstoða börn og ungmenni við að læra tungumálið. Hún segir að börn sem ná ekki fljótt góðum tökum á íslenskunni séu líklegri til að verða jaðarsett og að möguleikar þeirra á framhaldsnámi takmarkist. 

„Fyrsta stig íslenskukennslunnar er íslenskuverin, en þau eru fyrir börn í 5-10. bekk. Elstu nemendurnir ganga fyrir. Íslenskuverin eru fjögur. Í fyrra lá fyrir að þau voru öll sprungin. Allt of mörg börn bíða eftir því að komast í þetta fyrsta úrræði. Það vantar fleiri stöðugildi. Fjármagni sem varið er í þau stöðugildi er vel varið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert