Fyrstu kaupendur fengu lykla afhenta

Einar Þorsteinsson borgarstjóri afhendir lykla að íbúð í Úlfarsárdal.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri afhendir lykla að íbúð í Úlfarsárdal. Ljósmynd/Róbert Reynisson

Fyrstu kaupendur hagkvæms húsnæðis í Úlfarsárdal fengu lykla afhenta fyrir íbúðir sínar fyrir helgi að Einari Þorsteinssyni borgarstjóra viðstöddum.

52 íbúðir við Rökkvatjörn og Skyggnisbraut í Úlfarsárdal eru hluti af verkefni Reykjavíkurborgar um hagkvæmt húsnæði fyrir fyrstu kaupendur og kaupendur undir 40 ára, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Urðarsel ehf. fékk lóðinni úthlutað undir formerkjum um hagkvæmt húsnæði og hefur af miklum metnaði byggt þar upp með samstarfsaðilum, en Alverk ehf. sá um framkvæmdina í aðalverktökusamningi. Húsið er Svansvottað þar sem markvisst var unnið að því að minnka umhverfisáhrif framkvæmdanna, meðal annars með kröfum um lága orkunotkun hússins og ríka áherslu á öruggari og umhverfisvænni efni. Arkitekt hússins er Helgi Mar Hallgrímsson hjá Arkþing Nordic,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Einari borgarstjóra í tilkynningunni að verkefnið gefi ungu fólki tækifæri til að móta sína framtíð og mikilvægt sé fyrir borgina að vera í samstarfi við aðila sem byggja fallega og af miklum gæðum.

Um 700 íbúðir falla undir verkefnið um hagkvæmt húsnæði. Þegar hefur verið flutt inn í sumar þeirra og fleiri eru á leiðinni.

Alls sóttu 139 um íbúðir við Rökkvatjörn og Skyggnisbraut. 66 umsóknir voru um tveggja herbergja, 52 um þriggja herbergja og 19 um fjögurra herbergja íbúðir. Dregið var úr hópi umsækjenda í viðurvist lögfræðinga í Ráðhúsi Reykjavíkur í sumar.

„Mikill skortur hefur verið á litlum íbúðum fyrir unga og fyrstu kaupendur en í þessum þremur húskjörnum erum við með hátt hlutfall af litlum íbúðum sem er mikilvægt til að halda lágu kaupverði á fyrsta heimilinu“, segir Gísli Örn Bjarnhéðinsson, framkvæmdastjóri Urðarsels, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert