Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um einstakling í annarlegu ástandi í umferðinni. Við afskipti lögreglu streittist viðkomandi talsvert á móti.
Í dagbók lögreglu segir að einstaklingnum tókst að brjóta rúðu í lögreglubifreið.
Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem hann var vistaður sökum ástands.
Þá var ökumaður stöðvaður í akstri vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Er lögregla kom að bifreiðinni voru farþegi og ökumaður í óða önn að skipta um sæti og reyndu að villa um fyrir lögreglu.
Segir að það hafi ekki tekist og voru báðir einstaklingar handteknir á vettvangi. Þá fundust einnig fíkniefni í bifreiðinni.