Í nótt var dvalið í 46 húsum í Grindavík sem er næstum því jafn mikið og fyrir eldgosið sem hófst á miðvikudagskvöld.
Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is.
„Heimildin nær til þeirra sem hagsmuni hafa að gæta inn í Grindavík, eins inn í Svartsengi, og íbúum er heimilt að dvelja í bænum eins og oft áður en þá á eigin ábyrgð,“ segir Úlfar.
Han mælir ekki með því að menn dvelji í bænum en tekur fram að um þaulvant fólk sé að ræða. Hann segir að það hafi verið dvalið í 56 húsum kvöldið sem eldgosið hófst.
„Þetta er sami hópur sem leitar aftur inn í bæinn. Þetta eru hoknir Grindvíkingar sem þekkja leikreglurnar mjög vel og hafa búið þarna til langs tíma,“ segir Úlfar.