„Það er nánast eins og regla að pólitískur ferill fólks endar í ósigri. Því merkari sem ferillinn hefur verið því hærra er fallið. Þetta höfum við horft á oft á umliðnum árum hjá merkum stjórnmálaforingjum. Það á jafnvel líka við um minni spámenn eins og mig, ég upplifði ósigur í pólitík, datt út af þingi. En maður á aldrei að taka sér stöðu í ósigrinum, ekki að dvelja í honum og ekki heldur afneita honum heldur halda áfram og gera eitthvað uppbyggilegt. Mér finnst of algengt að gamlir stjórnmálamenn reyni að snúa aftur og endurheimta stöðu sína. Það getur verið sorglegt að horfa upp á það því þingmennskustarfið er tímabundin þjónusta og alltaf nóg af fúsu fólki.“
Þetta segir Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur sem sat í nokkur ár á þingi fyrir Samfylkinguna. Hann er í ítarlegu viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Guðmundur Andri sendir frá sér skáldsögu fyrir jólin. Hún nefnist Synir himnasmiðs en þar eru karlmenn í aðahlutverki.
„Vantar virkilega bók eftir roskinn karl um sálarlíf, ástir og þrár roskinna karla? Auðvitað ekki, en samt tel ég mér trú um að nákvæmlega þessi bók og einmitt svona bók hafi ekki verið skrifuð,“ segir Guðmundur Andri og bætir við:
„Hún er skrifuð af karli en ekki karlakarli. Þetta er ekki svona „karlréttindabók“. Hún er ekki heldur femínísk – án þess þó að vera andfemínísk. Hún verður til í vitund um þessa hluti en ég fókusera á einstaklinga sem manneskjur, ekki holdgaðar hugmyndir. Ég hef aldrei átt í neinum erfiðleikum með að vera karlmaður, og ég hef aldrei skilið karla sem hata konur, þær eru helmingur mannkyns. Ég hef aldrei upplifað það sem vandamál að vera af því kyni sem ég er. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það er til nokkuð sem gengur undir nafninu feðraveldið. Og feðraveldið er ekki bara valdamunstur í samfélaginu heldur líka þankagangur sem maður fæðist inn í, mót sem við hreyfum okkur í, hlutverkaskipan og hálfgert verkplan í lífinu.“