Um tuttugu mínútum munar á tímanum sem tvær klukkur á kirkjuturni Hallgrímskirkju sýna.
Grétar Einarsson, kirkjuhaldari Hallgrímskirkju, segir að um viðvarandi vandamál sé að ræða sem skrifist á vindinn sem hafi áhrif á vísa klukknanna.
Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig klukkan sem vísar í suðausturátt og trónir yfir kirkjuskipinu sýnir tímann korter í tólf.
Á nákvæmlega sama tíma sýnir klukkan sem vísar í suðvestur tímann 25 mínútur yfir ellefu.
Réttstilltar klukkur hefðu sýnt tímann tíu mínútur í tólf.
„Þær hafa ekki verið samstilltar í mörg, mörg, mörg ár,“ segir Grétar þegar blaðamaður ber undir hann ósamræmið.
„Það er mjög vindasamt þarna uppi og þar af leiðandi þá eiga vísarnir það til að færast til,“ útskýrir kirkjuhaldarinn svo.
Grétar kveðst vona að hægt verði að ráða bót á þessu bráðum. „En ég veit ekki hvenær eða hvernig það verður gert.“
Kirkjuklukkurnar frægu í Hallgrímskirkju sem láta í sér heyra á heila tímanum eru sem betur fer ekki tengdar ósamstilltu klukkum turnsins, að sögn Grétars, og halda því sínum takti sama hvað vindáttinni líður.