„Þetta er gott tækifæri fyrir ungt tónlistarfólk til að kynnast tónbókmenntunum, auk þess sem hljómsveitin hefur mikla félagslega þýðingu fyrir þau. Hérna eru þau með sínum jafnöldrum að takast á við erfið og krefjandi verkefni,“ segir Gunnsteinn Ólafsson, hljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar unga fólksins, spurður um gildi sveitarinnar sem heldur upp á 20 ára afmæli sitt með tvennum tónleikum í Langholtskirkju kl. 20 á sunnudag og mánudag.
„Þess utan er stjórnin skipuð krökkum úr hljómsveitinni, ásamt mér, meðan ráðuneytið var með puttana í Sinfóníuhljómsveit æskunnar meðan hún var og hét. Þannig að boðleiðirnar eru styttri hjá okkur. Þetta er algjör grasrót byggð á lifandi áhuga. Það eru algjör forréttindi fyrir mig að starfa með þessari hljómsveit,“ heldur Gunnsteinn áfram.
Á tónleikunum frumflytur hljómsveitin Þjóðlagasinfóníu eftir Kjartan Ólafsson, Ingibjörg Linnet leikur trompetkonsert eftir Johann Babtist Neruda, sem uppi var á 18. öld, og loks flytur hljómsveitin Gloriu eftir 20. aldar manninn Francis Poulenc ásamt Háskólakórnum og Maríu Sól Ingólfsdóttur sópran.
Gunnsteinn segir Kjartan hafa komið að máli við sig og lýst áhuga sínum á að semja nýtt verk fyrir þetta tilefni. Það er svo sem engin nýlunda en hljómsveitin hefur frumflutt 21 verk eftir íslensk tónskáld á þessum 20 árum. Sum hafa verið sérstaklega pöntuð, önnur hafa komið til sveitarinnar.
„Stundum hitti ég bara fólk á förnum vegi sem vill semja fyrir okkur verk. Þetta er eins og fljót sem flæðir og ég held að megi segja að hljómsveitin hafi verið íslenskum tónskáldum mikil hvatning; þau finna að þarna er að finna æð til að koma verkum sínum á framfæri,“ segir Gunnsteinn.
Nánar er rætt við Gunnstein í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.