„Vegirnir voru eins og borðstofuborð, sama hvar við vorum, á þjóðvegum eða fáfarnari vegum. Það er til eftirbreytni. Síðan var viðmót fólksins sem við hittum alls staðar frábært, það vildi allt fyrir okkur gera.“
Þetta segir Arnbjörn Arason, forseti Widows Sons á Íslandi, en sex félagar úr þessum alþjóðlegu mótorhjólagóðgerðarsamtökum frímúrarabræðra og konur þeirra fóru í
tæplega mánaðarlanga ævintýraferð um Evrópu í haust og söfnuðu um leið peningum fyrir Reykjadal í Mosfellsbæ.
Það er ekki sjálfgefið enda fyrirfinnst fólk sem er smeykt við mótorhjólamenn í fullum herklæðum. Tengir þá jafnvel við eitthvað misjafnt. Þá sjaldan það gerðist breyttist afstaðan um leið og Widows Sons gerðu grein fyrir erindi sínu og tilgangi ferðarinnar.
Addi nefnir sem dæmi hjón sem hópurinn rakst á fyrir utan hótel sitt í Frakklandi. „Ég sýndi þeim texta, með aðstoð Google translate, sem útskýrði hvað við værum að gera. Eftir það litu þau hvort á annað og karlinn dró upp 10 evra seðil. „Ég veit að þetta er ekki mikið, en vonandi hjálpar það til,“ sagði hann. Þetta viðmót var dæmigert fyrir fólkið sem við hittum á leiðinni,“ segir Addi. „Okkur leið aldrei eins og að við værum aðkomumenn; allir tóku okkur opnum örmum.“
Önnur saga er frá ítölsku veitingahúsi og hóteli í Þýskalandi, þar sem hópurinn fékk að gista eina nóttina. Að málsverði loknum vildi vertinn endilega leysa fólk út með staupi af þjóðardrykknum Grappa, sem gjarnan er gripið til á Ítalíu til að stemma magann af eftir málsverð. „Svo fór hann að spyrja okkur nánar út í ferðalagið og því lauk með því að hann fór afsíðis og kom til baka með forláta flösku af Grappa reserva og gaf okkur hana. „En þið megið ekki drekka hana sjálf, hún á að fara á uppboð,“ sagði hann. Við gegndum því að sjálfsögðu og fyrir hana fékkst fínt verð á uppboðinu, 50 þúsund krónur,“ segir Addi og bætir við að vertinn hafi verið með tárin í augunum. „Svo knúsuðumst við með virktum.“
Nánar er fjallað um ferðalagið í máli og myndum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.