Mun meiri heitavatnsnotkun var á höfuðborgarsvæðinu í október en í sama mánuði í fyrra. Heilt yfir hefur heitavatnsnotkun aukist talsvert frá því á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í svari Veitna við fyrirspurn Morgunblaðsins.
„Nú í lok nóvember er notkun á heitu vatni orðin 6% meiri en á sama tíma á síðasta ári. Notkunin var 10% meiri í október á þessu ári en í október í fyrra en októbermánuður var óvenjukaldur í ár,“ segir í svarinu.
Upplýsingafulltrúi Veitna segir jafnframt að ekki hafi verið þörf á því að grípa til skerðinga vegna þessarar auknu notkunar. Þó hafi þurft að skerða til stórnotenda í stuttan tíma vegna bilunar í Nesjavallavirkjun í október. Eins og margir muna þurfti af þeim sökum að loka sundlaugum í Reykjavík í um það bil sólarhring. hdm@mbl.is