Verkföllum kennara á öllum skólastigum hefur verið frestað út janúar í þeim tilgangi að gefa samninganefndum kennara, ríkis og sveitarfélaga vinnufrið í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir.
Deiluaðilar hafa skrifað undir samkomulag þess eðlis.
„Það var verið að undirrita hérna samkomulag þar sem verkfallsaðgerðir eru stöðvaðar og gert rammasamkomulag um það hvernig skuli staðið að frágangi kjarasamnings við Kennarasamband Íslands og rammasamkomulag um vegferðina,“ segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.
„Við gefum okkur tveggja mánaða tímabil til að ljúka þeim og höfum friðarskyldu á meðan,“ bætir hann við.
Verkfallsaðgerðir í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskólum verða því stöðvaðar frá og með deginum í dag og mæta kennarar sem hafa verið í verkföllum aftur til vinnu á mánudag.
Ef samningar nást ekki fyrir 1. febrúar 2025 hefjast verkfallsaðgerðir í þeim skólum sem þegar hafa greitt atkvæði og samþykkt verkföll, sem og þeim skólum sem eru í verkfalli í dag.
Ríkissáttasemjari lagði tillöguna fyrir samninganefndirnar í gær eftir að lítið sem ekkert hafði þokast í kjaradeilunni frá því að verkfallsaðgerðir kennara hófust þann 29. október síðastliðinn.
Eini framgangurinn sem hafði orðið var að deiluaðilar höfðu náð að koma sér saman um viðræðugrundvöll og sammælast um ákveðið verkplan, sem var lykilatriði svo samtalið gæti hafist fyrir alvöru. Illa hafði hins vegar gengið að skapa frið og koma samtalinu í gang.