Nýtt og endurbætt vefsvæði Hafrannsóknastofnunarinnar

Hafrannsóknastofnun opnaði í dag nýtt og endurbætt vefsvæði og er því ætlað að veita öllum jafnan og greiðan aðgang að þeim viðamiklu upplýsingum sem Hafrannsóknastofnunin hefur aflað á undanförnum árum. Meðal nýjunga á vefnum er safn ljósmynda sem teknar eru neðansjávar og í fjörum og aukin áhersla á fréttir og samskipti við notendur vefjarins.

Á undanförnum árum hefur Hafrannsóknastofnunin unnið markvisst að því að efla miðlun upplýsinga um rannsóknir stofnunarinnar á umhverfi hafsins og ástandi fiskstofna við landið með það markmið að efla umræðu um skynsamlega nýtingu auðlindarinnar. Nýju vefsvæði er ætlað að veita öllum jafnan og greiðan aðgang að þeim viðamiklu upplýsingum sem Hafrannsóknastofnunin hefur aflað á undanförnum árum og eru grundvöllur að tillögum stofnunarinnar um skynsamlega nýtingu fiskistofna.

Almennar upplýsingar um Hafrannsóknastofnunina, greinaskrif sérfræðinga, ráðgjöf, upplýsingar um einstakar rannsóknir og nýjustu fréttir af starfsemi stofnunarinnar eru þannig aðgengileg öllum auk þess sem leyndardómar hafsins eru kynntir yngri kynslóðinni.

Meðal nýjunga á vefnum er svokallað Gagnalind, en þangað geta notendur sótt ýmsar upplýsingar úr gagnagrunnum stofnunarinnar um veiðar og rannsóknir á ýsu og þorski við landið frá árinu 1992 til dagsins í dag. Þannig hefur verið þróaður gagnvirkur hugbúnaður sem sem gerir notanda kleift að framkvæma eigin útreikninga á þáttum eins og afla og meðallengd, eftir svæðum, veiðarfærum, skipastærð o.s.frv.

Íslenska verkfræðistofan ehf. sá um gerð vefsins og umsjónakerfis í samvinnu við starfsmenn Hafrannsóknastofnunarinnar. Vefstjóri er Guðmundur Pálsson.

Heimasíðan Hafró.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert