Heimilt verði að setja lágmarksverð á kjöt

Heimild verður veitt landbúnaðarráðherra til að setja tímabundið lágmark á heildsöluverð á kjöti og öðrum fleiri búvörum, verði tillögur tveggja lögfræðinga, sem tekið hafa saman skýrslu fyrir landbúnaðarráðuneytið, leiddar í lög.

Landbúnaðarráðuneytið fól Árna Vilhjálmssyni hrl. og Eiríki Tómassyni lagaprófessor að kanna tengsl búvörulaga og samkeppnislaga og sérstaklega að leggja mat á það hvernig hægt væri að tryggja virka samkeppni í framleiðslu og sölu búvara án þess að hagsmunir bænda og íslensks landbúnaðar væru fyrir borð bornir. Þeir hafa nú skilað áliti sínu til ráðuneytisins.

Lögfræðingarnir segja að ekkert sé því til fyrirstöðu fyrir löggjafann að ákveða að undanþiggja framleiðslu og viðskipti með þær búvörur, sem framleiddar eru hér á landi, ákvæðum samkeppnislaga.

Segja þeir að á meðan samkeppni í viðskiptum með mjólk og mjólkurafurðir sé takmörkuð hér á landi gæti verið rökrétt að halda áfram að ákveða heildsöluverð á þessum afurðum, með sama hætti og gert hefur verið. Jafnframt er lagt til að afurðastöðvum í mjólkuriðnaði verði gert kleift að takast á við harðnandi samkeppni, án opinberra afskipta, með því að heimila þeim að gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og með annars konar samstarfi.

Reiknað framleiðsluverð

Varðandi kjöt og aðrar búvörur er bent á að offramleiðsla og lágt verð til framleiðenda hafi auk fleiri atriða leitt til gjaldþrota, bæði kjúklinga og svínabúa. Lágt verð á þessum afurðum hafi jafnframt haft slæm áhrif á aðrar landbúnaðarafurðir. Telja lögfræðingarnir að markmið búvörulaga séu ekki að nást nú um stundir að því er varðar kjötframleiðsluna.

"Þegar það ástand ríkir á tilteknum markaði að verið er að selja vörur langt undir framleiðslukostnaði getur verið réttlætanlegt að ákvarða lágmarksverð tímabundið meðan ástandið jafnast út og er fordæmi fyrir slíkum heimildum víða að finna." Leggja þeir til að óháðum aðila, til dæmis Hagþjónustu landbúnaðarins, verði falið að reikna út meðalframleiðslukostnað á kjöti og að landbúnaðarráðherra verði heimilað, miðað við tilteknar hlutlægar forsendur, að grípa inn í og setja lágmaksheildsöluverð tímabundið í viðkomandi grein. Leggja þeir til að heimilt verði að beita þessu ákvæði allt að sex mánuði í senn, fari heildsöluverð tiltekinna búvara niður fyrir 50% af reiknuðum framleiðslukostnaði, en verðið megi þó ekki hafa hærra en 80% af reiknuðum framleiðslukostnaði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert