Ástþór fékk stuðningsyfirlýsingu frá Betlehem

Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi hafði í nógu að snúast við að svara spurningum fólks á netfundi sem hann stóð fyrir í gærkvöldi líkt og í fyrrakvöld. Þegar Morgunblaðið hafði samband við hann hafði netfundurinn staðið í rúman einn og hálfan klukkutíma og höfðu spurningarnar verið af margvíslegum toga t.a.m. hvert yrði fyrsta embættisverk hans sem forseta, hvað hann hygðist gera í friðarmálum o.fl. Að sögn Ástþórs gekk honum greiðlega að svara öllum spurningum.

Ástþór sagðist ekki hafa haldið neina aðra fundi utan þeirra sem haldnir hefðu verið á Netinu og því legði hann áherslu á að nýta kosti tölvunnar í baráttu sinni fyrir forsetastólnum og geta áhugasamir kynnt sér framboð Ástþórs á www.forsetakosningar.is. Hann benti á að hann hefði fengið stuðningsyfirlýsingu frá friðarsamtökunum Holy Land Trust, sem eru óháð palestínsk samtök staðsett í Betlehem, og hvetji þau hann í komandi kosningum, og sagðist Ástþór vonast til þess að Íslendingar myndu kjósa með hjartanu á laugardag. Hann bætti því við að hann tryði ekki öðru en að Íslendingar myndu kjósa friðinn því hann hefur stórar hugmyndir um það hvernig forsetaembættið geti verið virkur þátttakandi í friðarstarfsemi í heiminum. Annars fyndist honum að bæði þeir sem kysu annað eða þá slepptu því að kjósa hlytu þá að vera með steinhjarta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert