Skýrir EM í fótbolta minni sókn í Kvennaathvarfið?

Fjórar konur og 2-3 börn hafa að jafnaði dvalið í Kvennaathvarfinu það sem af er ári. Heldur rólegt hefur verið yfir athvarfinu í júní og eru ýmsar kenningar uppi um hverju það sætir. Meðal annars að gott veður og Evrópumeistarakeppnin í fótbolta hafi þarna einhver áhrif.

Þetta kemur fram í upplýsingum frá Kvennaathvarfinu en þar segir að reynsla undanfarinna ára hafi sýnt að aðsókn í athvarfið fari hvorki eftir árstímum né öðrum utanaðkomandi þáttum heldur væri hún tilviljanakennd og óútreiknanleg frá degi til dags.

Ef síðustu mánuðir eru skoðaðir í heild sinni kemur í ljós að fjórar konur dvelja hverju sinni í athvarfinu að meðaltali og 2-3 börn. Á árinu hafa komið 44 konur til dvalar með 33 börn. Dvalardagar kvenna eru orðnir 575 það sem af er árinu og barna 367.

Alls eru því dvalardagar kvenna og barna 942 á fyrri helmingi ársins. Þarna er um töluverða fjölgun að ræða á milli ára því dagar barna og kvenna í dvöl á síðasta ári námu 1.501 degi allt árið.

Að sögn Kvennaathvarfsins ber að varast að tengja fjölda kvenna í athvarfinu við tíðni heimilisofbeldis. Mun líklegra sé að fjölgun stafi af aukinni umræðu í þjóðfélaginu og þar af leiðandi betri vitneskju kvenna af því úrræði sem Kvennaathvarfið sé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert