Sakborningar í líkfundarmáli dæmdir í 2½ árs fangelsi hver

Jónas Ragnarsson og Thomas Malakauskas í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar málflutningur …
Jónas Ragnarsson og Thomas Malakauskas í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar málflutningur stóð yfir.

Sakborningarnir þrír í líkfundarmálinu svonefnda í Neskaupstað, þeir Grétar Sigurðarson, Jónas Ingi Ragnarsson og Thomas Malakauskas, voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdir í 2½ árs fangelsi hver. Til frádráttar kemur 32 daga gæsluvarðhald sem mennirnir þrír sátu í meðan á rannsókn málsins stóð.

Þá er mönnunum gert að sæta upptöku á 223,67 grömmum af amfetamíni, sem fundust í iðrum Litháans Vaidasar Juceviciusar, en lík hans fannst í höfninni í Neskaupstað í febrúar sl. þar sem sakborningarnir komu því fyrir.

Grétar Sigurðarson var eini sakborningurinn sem var viðstaddur dómsuppkvaðninguna, sagði að niðurstaðan hefði ekki komið sér á óvart en ljóst væri að hann myndi áfrýja dómnum til Hæstaréttar.

Þeir Grétar, Jónas Ingi og Thomas voru ákærðir fyrir að hafa staðið að innflutningi á 223,67 grömmum af amfetamíni, sem Jucevicius flutti til landsins innvortis í byrjun febrúar. Þá voru þeir ákærðir fyrir brot gegn lífi og líkama með því að koma Juceviciusi ekki til hjálpar í lífsháska þegar hann veiktist alvarlega. Þeim er einnig gefið að sök ósæmileg meðferð á líki Juceviciusar þegar þeir fluttu það í Neskaupstað og sökktu því í sjó.

Verjandi Jónasar: Of þung refsing miðað við hlutdeild í brotunum

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Jónasar Inga, sagði að sér sýndist fráleitt að ekki væri tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar að hlutdeild sakborninganna þriggja í málinu væri mjög mismunandi. Bæði ætti það við um þann þátt að koma ekki manni í neyð til hjálpar og eins hvað varðar innflutning á fíkniefnum. Sagði hann hlutdeild Jónasar í þessum efnum miklu minni en hinna og þætti sér því refsing hans of þung.

Dómurinn er hins vegar ekki á því að hlutdeild Jónasar Inga hafi verið minni, en hann harðneitað því fyrir dómi að hafa nokkuð vitað um atvik að dauða Vaidasar Juceviciusar eða að lík hans hafi verið meðferðis í ferð þeirra Tomasar á jeppa austur á Neskaupstað og því komið í höfnina þar.

Dómarar segja framburð Jónasar svo fráleitan að engu tali tæki

Segir dómurinn að fyrir liggi að Jónas Ingi hafi komið nokkrum sinnum í íbúð Tomasar á Furugrund í vikunni sem Vaidas dvaldist þar, hafi verið með í ferðinni áleiðis til Keflavíkur er til stóð að hann færi úr landi, hafi stutt Vaidas upp í íbúðina á Furugrund ásamt Grétari er snúið var til baka, verið í íbúðinni meðan Vaidas háði dauðastríð sitt og átt mestan þátt í undirbúningnum að ferðinni austur. Staðhæfing hans að hann hafi ekki vitað um dauða mannsins eða líkflutninginn, svo og skýringar hans á atburðarásinni, eftir að komið var aftur með Vaidas á Furugrund, og einstökum atriðum í henni væru svo fráleitar að engu tali tæki. Þá væru þær í ósamræmi við skýrslur meðákærðu. Yrði að hafna staðhæfingu hans og skýringum alfarið og telja sannað með framburði meðákærðu, sem studdur væri fjölmörgum rannsóknargögnum, að Jónasi Inga hafi ekki einasta verið fullkunnugt um dauða Vaidasar og að lík hans var með í jeppanum austur, heldur einnig að hann hafi ásamt Grétari búið líkið til flutnings, komið því út í bílinn og flutt það austur ásamt Tomasi til þess að losa sig þar við það.

Sömuleiðis kemst dómurinn að þeirri niðurstöðu að Jónas hafi staðið að því í samvinnu við Grétar og Tomas að flytja inn fíkniefnin sem um ræðir í málinu og skýringar hans um að hafa hvorki vitað um innflutninginn eða komið þar nærri fráleitar og að engu hafandi.

Grétar flaug austur til að undirbúa komu líksins til Neskaupstaðar

Í dómnum segir að Grétar hafi haldið því fram að hann hafi viljað þvo hendur sínar af málinu og haldið austur á Neskaupstað á föstudeginum til þess að hvíla sig og að ekki hafi komið til tals með þeim þremur að líkið yrði flutt austur áður en þeir skildu. Hafi hann ekki frétt af líkflutningnum fyrr en Tomas og Jónas Ingi voru komnir á Djúpavog.

Segir í dómnum að þetta væri í andstöðu við framburð Tomasar sem hélt því fram að Grétar hafi sagt þeim að flytja líkið austur og að hann yrði búinn að undirbúa komu þeirra þangað. Þegar haft væri í huga að sakborningarnir lögðu í langt ferðalag um hávetur og brutust í ófærð alla leið til Neskaupstaðar með líkið þótti dómnum ekki varhugavert að byggja á frásögn Tomasar um það að Grétar hafi verið með í ráðum um flutning líksins austur þangað í því skyni að þeir gætu þar losað sig við það.

Tomas játaði á sig innflutning fíkniefnanna og kvað þá Vaidas hafa skipulagt hann saman. Hann sagði hlut Grétars þann að samþykkja að hjálpa til við að dreifa efnunum hér á landi og hafi Grétari verið kunnugt um hvað til stæði nokkrum dögum fyrir komu Vaidasar.

Bar skylda til að taka ráðin af Vaidasi

Í niðurstöðum héraðsdóms segir að mönnunum hafi borið skylda til þess að taka ráðin af Vaidasi vegna veikinda hans daginn áður en hann lést og koma honum sjálfir á sjúkrahús eða kalla til sjúkralið og lögreglu. Enda þótt fallist yrði á þá viðbáru Grétars að hann hafi haft ástæðu til þess að óttast um velferð sína eða sinna af hendi einhverra ótiltekinna manna ef hann ljóstraði upp um innflutninginn leysti það hann ekki undan sök. Þá leysir það heldur ekki hiina undan sök þótt þeir þættust sjá fram á það að þeim yrði refsað fyrir innflutning efnanna þegar kæmist upp um þá.

Voru mennirnir þrír því sakfelldir fyrir brot gegn 221. gr. almennra hegningarlaga sem leggur manni á herðar þá skyldu að koma þeim manni til hjálpar sem staddur er í lífsháska.

Auk fangelsisrefsingar var Grétari gert að þola upptöku á riffli, lásboga, kylfu, 6 fall- og fjaðurhnífum og kasthníf sem hann hafði í vörslum á heimili sínu, en með því gerðist hann sekur um brot á vopnalögum.

Mennirnir þrír voru dæmdir til að borga verjandum sínum 500.000 krónur í hver réttargæslu- og málsvarnarlaun og annan sakarkostnað óskipt.

Grétar Sigurðsson kemur í dómssalinn þegar málflutningur stóð yfir.
Grétar Sigurðsson kemur í dómssalinn þegar málflutningur stóð yfir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert