Kaupmenn vilja að virðisaukaskattur lækki í 12%

Lagt er til að virðisaukaskattur á öll matvæli verði 12% og vörugjöld af matvælum verði felld niður í sameiginlegri umsögn SVÞ og Samtaka atvinnulífsins (SA) um fyrirliggjandi frumvarp um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, sem nú liggur fyrir Alþingi. Nú er virðisaukaskattur á matvæli ýmist 24,5% eða 14%. Í frumvarpinu er lagt til að lægra þrepið lækki úr 14% í 7%, sem hefði í för með sér 5,3 milljarða króna skattalækkun miðað við 2002. Tillaga SVÞ og SA um að virðisaukaskattur á öll matvæli færist í 12% og niðurfellingu á vörugjöldum myndi leiða til sömu tekjulækkunar fyrir ríkissjóð, eða 5,3 milljarða króna, miðað við sömu forsendur, að því er fram kemur í fréttapósti SVÞ.

„Rökin fyrir þeirri leið sem samtökin leggja til eru einkum þau að með slíkum breytingum yrðu alvarlegir agnúar sniðnir af skattkerfinu og það fært nær því sem tíðkast hjá nágrannaþjóðum okkar. Þá er líklegt að slík útfærsla kæmi sér betur fyrir tekjulægri hópa en að lækka einungis vörurnar sem nú eru í lægra þrepinu. Loks má benda á að sú breikkun bils milli skattþrepanna sem frumvarpið gerir ráð fyrir myndi að öllum líkindum stuðla að auknum undanskotum,“ að því er segir í fréttapósti SVÞ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert