Þjóðminjasafnið keypti íslenskt drykkjarhorn í Noregi

Drykkjarhornið, sem Þjóðminjasafnið hefur keypt.
Drykkjarhornið, sem Þjóðminjasafnið hefur keypt.

Þjóðminjasafn Íslands hefur keypt íslenskt drykkjarhorn frá 15. öld af einkaaðila í Noregi. Safninu bauðst hornið til kaups á dögunum og segir að þar sem um töluverða fjárfestingu sé að ræða hafi verið leitað eftir stuðningi menntamálaráðherra vegna kostnaðar við kaupin og Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar ehf. um fjármögnun á öðrum kostnaði við endurheimt þess. Hornið er væntanlegt til landsins nú í febrúar.

Fram kemur í tilkynningu að drykkjarhornið, sem gengur undir heitinu Maríuhornið, sé frá lokum 15. aldar og með elstu drykkjarhornum sem varðveist hafa. Hornið hafi mikið listrænt og sögulegt gildi, sé skorið stílfærðu jurtaskrauti sem skipt er niður í belti og á því sé útskorin áletrun, AUE MARIA. Mikill fengur sé fyrir Þjóðminjasafnið að fá þetta horn heim eftir aldalanga fjarveru en því verði komið fyrir meðal annarra miðaldahorna á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins.

Alls hafa varðveist tæplega fjörutíu útskorin íslensk drykkjarhorn frá miðöldum. Einungis átta þessara horna eru hér á landi og öll varðveitt í Þjóðminjasafninu. Nákvæmt yfirlit er til um fjölda og gerð íslenskra drykkjarhorna frá miðöldum en norski fræðimaðurinn og listfræðingurinn dr. Ellen Marie Magerøy hefur rannsakað þau í áratugi. Segir í tilkynningunni, að þessar rannsóknir hafi hjálpað Þjóðminjasafninu að komast yfir íslensk horn en stefna safnsins sé að eignast þau horn sem fáanleg eru hverju sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert