Vill úttekt á framgöngu skólameistara MÍ gagnvart starfsfólki

Elna Katrín Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Félags framhaldsskólakennara, skorar á menntamálaráðuneytið að gera rækilega úttekt á framgöngu skólameistara Menntaskólans á Ísafirði gagnvart samstarfsfólki sínu og hlutast til um aðgerðir sem feli í sér varanlegar úrbætur. Kemur þetta fram í bréfi sem sent var Guðmundi Árnasyni ráðuneytisstjóra þann 15. febrúar síðastliðinn en þá var Elna Katrín formaður Félags framhaldsskólakennara.

Í bréfinu segir að kennarar við Menntaskólann á Ísafirði snúi sér mjög oft með kvartanir sínar til félagsins og telji sér ekki fært, vegna ofríkis skólameistarans, að fylgja þeim eftir sjálfir. „Stjórn félagsins lítur svo á að rökstuddar kvartanir þess og einstakra félagsmanna séu þess efnis að óhjákvæmilegt sé að menntamálaráðuneytið láti málið til sín taka."

„Gögn sem afhent hafa verið ráðuneytinu sýna svo ekki verður um villst að hrein ógnarstjórn ríkir í samskiptum skólameistarans við kennarana, og slíkt kemur niður á öllu skólastarfi, bæði gagnvart kennurunum sjálfum og nemendum þeirra, og kennarar hafa mjög mikla tilhneigingu til að leita sér að starfsvettvangi annars staðar eins og dæmin sanna. Nýjasta dæmið, sem er áminningarmál gagnvart Ingibjörgu Ingadóttur, er að áliti félagsins afar skýrt dæmi um þessa stjórnunarhætti, en það mál hefur sérstöðu umfram mörg önnur að því leyti, að þar nýtur við skriflegra gagna um þessa umræddu stjórnunarhætti sem annars birtast oftast með óformlegum hætti, í formi tilskipana og alls kyns niðurlægingar", segir enn fremur í bréfinu.

Aðspurður segir Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri, að bréfið hafi verið framsent skólameistara Menntaskólans á Ísafirði. Skólameistara er gefinn kostur á að tjá sig um efni þess, en engar fleiri aðgerðir hafa verið ákveðnar að hálfu menntamálaráðuneytisins að svo stöddu.

Ólína Þorvarðardóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði, vísaði á Björn Jóhannesson, lögmann skólans, þegar hún var beðin um að tjá sig um efni bréfsins.

„Ég vísa til þeirrar yfirlýsingar sem stjórnendur skólans hafa þegar gefið varðandi skólastarfið. Sú yfirlýsing segir í raun allt sem segja þarf og skýrir sig sjálf. Órökstuddum kvörtunum Félags framhaldsskólakennara munu skólastjórnendur væntanlega svara hluteigandi aðilum, þ.e.a.s. menntamálaráðuneytinu, ef eftir því verður leitað að hálfu ráðuneytisins. Það mál sem nú er til meðferðar hjá Héraðsdómi Vestfjarða og varðar áminningu sem gefin var mun væntanlega hafa sinn eðlilega framgang hjá dómstólum en ekki vera rekið í fjölmiðlum", segir Björn Jóhannesson, lögmaður Menntaskólans á Ísafirði.

bb.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert