Agnes Bragadóttir í leyfi frá störfum til að stýra boði almennings í Símann

Agnes Bragadóttir.
Agnes Bragadóttir.

Agnes Bragadóttir hefur sótt um launalaust leyfi frá Morgunblaðinu til þess að koma á laggirnar félagi sem mun hafa það að markmiði að bjóða í stóran hlut Símans fyrir hönd almennings. Mikill fjöldi Íslendinga hefur heitið því að leggja fé í verkefnið og eru komin loforð upp á um einn milljarð króna frá almenningi.

„Hin feikilegu viðbrögð sem ég fékk gerðu það að verkum að ég endurskoðaði hug minn og hef þess vegna sótt um launalaust leyfi frá Morgunblaðinu og mun sinna þessu verkefni og engu öðru þar til útboðsfrestur rennur út 6. maí næstkomandi," sagði Agnes í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

Hún mun því taka fullan þátt í þessu verkefni í stað þess að koma hugmyndinni af stað eins og hún ætlaði sér áður. Hún sagði að fjölmargar áskoranir hefðu borist allstaðar að af landinu. Fólk hefði sagt sér að hún bæri ábyrgð á því að hugmyndin væri komin á loft og hún bæri ábyrgð á því að fylgja henni eftir.

Orri Vigfússon athafnamaður, sem hefur unnið að því að þessi hugmynd verði að veruleika, segir að hann og Agnes hafi þegar fengið á bilinu 6-700 tölvupósta vegna málsins. Hann segir að margir lofi að leggja til fé, gjarnan á bilinu 1-10 milljónir hver, en einhverjir lofi meiru, 10-30 milljónum. "Ég gæti vel trúað því að það sé í kringum milljarður kominn," segir Orri. Líklegt söluverð Símans alls er talið verða í kringum 60 milljarða króna, en enginn einn fjárfestir mun geta keypt meira en 45% hlut í Símanum.

Stofnað verður félag

Næsta skrefið er að stofna lögformlegt félag sem hefur það markmið að bjóða í hluta af Símanum og segist Orri vonast til þess að það gerist á innan við viku. Þegar það sé komið verði hægt að fara í almennt hlutafjárútboð. Þangað til félagið hefur verið stofnað sé þó gott að fá tölvupósta frá áhugasömum þar sem fram komi nafn, kennitala og símanúmer, ásamt þeirri upphæð sem viðkomandi gæti hugsað sér að fjárfesta fyrir, á netfangið orri@icy.is.

Þegar búið verður að stofna kjölfestufélagið mun því almenningur geta keypt hlut í því félagi, sem verður rekið í 2-3 ár. Svo verði fyrirtækið lagt niður og hluthafar í því verði hluthafar í Símanum. „Þá fá þeir fullan ávinning af þessu frá upphafi. Ég geri ráð fyrir því að mesti ávinningurinn komi frá þessum tímapunkti frá því Síminn verður seldur í sumar og fram að því að fyrirtækið verði sett í almenna sölu," segir Orri, og bendir á sambærilega reynslu af sölu bankanna.

Spurður hvort um áhættusama fjárfestingu verði að ræða segir Orri erfitt fyrir sig að segja til um það eins og standi. „Það er alltaf einhver áhætta, en ég geri ráð fyrir því að margir telji þetta litla áhættu og þetta sé mjög arðvænlegt. En við erum ekki búnir að setja þetta niður skilmerkilega, sem er gert þegar farið er í lögformlegt hlutafjárútboð."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka