Erlendir læknar sækja þekkingu hingað til lands

Landspítali – háskólasjúkrahús (LSH) hefur tekið forystu á Norðurlöndunum varðandi offituaðgerðir og hefur heilbrigðisstarfsfólk frá Danmörku, Noregi og Bretlandi komið hingað til lands til að læra aðferðir íslenskra sérfræðinga í slíkum skurðaðgerðum. Björn Geir Leifsson og Hjörtur Gíslason skurðlæknar hafa umsjón með offituaðgerðum á LSH. Björn segir tækniþróun síðustu ára gera aðgerðirnar sífellt hættuminni fyrir sjúklinginn. Frá árinu 2000 hafa verið gerðar alls um 250 offituaðgerðir í gegnum kviksjá. Í aðgerðinni er tengt framhjá um 95% af maganum og efri þriðjungi af mjógirninu. Þetta leiðir til þess að sjúklingur getur aðeins neytt lítilla matarskammta í einu auk þess sem matarlyst hans minnkar. Ef sjúklingurinn borðar rangan mat, sérstaklega feitan mat, nýtist fitan illa og sjúklingur fær svokallaða fituskitu sem gerir hann fráhverfan feitum mat.

Aðgerð gegnum fimm göt

Aðgerðin fer fram í gegnum fimm lítil göt á kviðnum með hjálp kviðsjár og er bati mjög skjótur eftir aðgerðina. Eru sjúklingar nokkuð hressir á fyrsta degi og eru venjulega farnir heim á þriðja degi eftir aðgerð. Árangur hefur að sögn verið góður, en 90% sjúklinga missa um 80–90% af yfirþyngd sinni og fara flestir niður að kjörþyngd eftir eitt og hálft til tvö ár. Við þennan þyngdarmissi lagast oftast margir af fylgikvillum offitu, t.d. hár blóðþrýstingur, sykursýki, kæfisvefn, hjarta- og æðasjúkdómar, geðdeyfð og félagsfælni.

Þótt aðgerðirnar séu dýrar eru þær taldar borga sig upp á tveimur til þremur árum, því lyfjakostnaður snarminnkar og sjúklingar komast fljótt í vinnu. Þá getur aðgerð hindrað örorku vegna offitu. Björn segir nýja tækni sem þróast hefur undanfarin ár gera aðgerðirnar mun fýsilegri og auðveldari fyrir sjúklingana. „Það er búið að vera að framkvæma offituaðgerðir í marga áratugi og þær hafa verið í stöðugri þróun. En þetta er fyrst síðustu árin orðið spennandi, þar sem ekki þarf að gera stóra skurði,“ segir Björn. „Nútíma kviðsjártækni og áhöld, þar á meðal örsmá heftitæki, hafa gjörbylt tækninni.“ Björn segir afar mikilvægt að gera sér grein fyrir því að aðgerðin er aðeins lítill hluti þeirrar meðferðar og undirbúnings sem sjúklingurinn þarf að leggjast í, en þar er LSH í samstarfi við Reykjalund.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert