Ofbeldið fær rauða spjaldið á Ingólfstorgi

Ungt fólk mun í dag kl. 17 sýna samstöðu gegn ofbeldi á Ingólfstorgi með því að gefa ofbeldi rauða spjaldið, en skammt er síðan svipuð athöfn var haldin á Akureyri.

Þórný Linda Haraldsdóttir, einn af forsvarsmönnum Birtingar - Samtaka ungs fólks sem standa fyrir samstöðufundinum í dag, segir að segja megi að kveikjan að fundinum hafi verið óhugnanlegir atburðir sem gerðist í Akureyrarbæ.

"Þó er fundinum beint gegn öllu ofbeldi, heimilisofbeldi, ofbeldi gegn körlum, konum og börnum," segir Þórný, en unga fólkið vinnur nú að því að stofna félag sem mun beita sér fyrir samfélagsbótum.

Á samkomunni í dag munu Hjálmar og KK spila og höfð verður þriggja mínútna þögn eins og á Akureyri. "Við vonum að fólk komi," segir Þórný. "Þetta gekk vel á Akureyri og fólk var ánægt með þetta, svo við vonum að fólk taki við sér og komi á Ingólfstorg. Ég býst við að sjá mjög marga og við vonum það. Við viljum fá fólk til að standa saman gegn þessu. Með samstöðu er allt hægt."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert