Nemendur geta útskrifast án þess að taka prófin

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur breytt reglugerð um samræmd stúdentspróf til bráðabirgða þannig að nemendur geta útskrifast stúdentar í vor án þess að hafa þreytt samræmt stúdentspróf í tveimur námsgreinum. Ástæðan er sögð vera sú að dæmi eru um að skráningar í prófin hafi misfarist auk þess sem veikindi og aðrar ástæður komu í veg fyrir að sumir nemendur gátu tekið prófin.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu voru samræmd próf í stærðfræði og ensku haldin í fyrsta skipti í vor en samræmd próf í íslensku hafa verið haldin nokkrum sinnum. Samkvæmt þágildandi reglugerð urðu stúdentsefni að hafa lokið a.m.k. tveimur samræmdum prófum til að geta útskrifast og þar sem ekki er boðið upp á sjúkrapróf leit út fyrir að útskrift þeirra sem voru veikir á prófdegi myndi tefjast um hálft ár.

Ekki er gerður greinarmunur á nemendum sem voru veikir eða ákváðu af öðrum ástæðum að taka ekki prófin. Eftir breytinguna eru heldur engin ákvæði um að nemandi skuli hafa lokið a.m.k. einu samræmdu stúdentsprófi til að útskrifast.

Ekki gert ráð fyrir sjúkraprófi

Steingrímur Sigurgeirsson, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, segir að reglugerð frá 2003 um samræmd stúdentspróf geri ekki ráð fyrir sjúkraprófum. "Hins vegar var talið nauðsynlegt að veita þessa undanþágu nú, í þetta eina skipti, þar sem fyrir lá að nokkur fjöldi nemenda hefði annars ekki getað útskrifast með eðlilegum hætti. Enda má segja að aðstæður séu sérstakar þar sem þetta var í fyrsta skipti sem nemendur höfðu tækifæri til að þreyta próf í ensku og stærðfræði," sagði hann.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert