Ekkert sem bendir til að skjálftarnir tengist eldsumbrotum á Reykjaneshrygg

Kortið af skjálftavirkninni frá klukkan 9 í morgun.
Kortið af skjálftavirkninni frá klukkan 9 í morgun. mbl.is/Veðurstofa Íslands

Steinunn Jakobsdóttir á eðlisfræðisviði Veðurstofu Íslands telur ekki að eldsumbrot séu hafin á Reykjaneshrygg en mikil skjálftavirkni hefur verið á hryggnum frá því síðdegis í gær. „Þetta eru óvenju stórar og þéttar skjálftahrinur en það er ekkert sem bendir til gosóróa,“ sagði Steinunn við Fréttavef Morgunblaðsins (mbl.is).

Að sögn Steinunnar hófst skjálftavirknin suður og suðvestur af Eldeyjarboða á Reykjaneshrygg á fjórða tímanum í gær. Hefur hún gengið yfir í miklum hrinum, tveimur í gær og gærkvöldi en svo einkum og sér í lagi frá miðnætti sl.

Fyrsti skjálftinn mældist kl. 14:30 af stærð u.þ.b. 3,5 stig á Richter. Á milli kl. 16:30 og 18 varð önnur hrina þar sem stærsti skjálftinn mældist um 4 stig. Um kl. 21:12 hófst þriðja hrinan, sem stóð í um 40 mínútur og mælast nokkrir skjálftar á því tímabili allt að 5 af stærð. Upp úr miðnætti jókst virknin aftur og virtist ná hámarki um kl. 7 í morgun. Skjálftar í nótt voru stærstir um 4,5-5 stig.

Skjálftarnir hafa að mestu verið á svæði á milli 62. og 63. gráðu norðlægrar breiddar eða 150-200 kílómetra frá Reykjanestá, að sögn Steinunnar. Á sjálfvirku skjálftakortunum á vef Veðurstofunnar virðist skjálftavirknin ganga á land á Suðurlandi. Þetta er ekki rétt, vegna hinnar miklu virkni suður á hrygg reynir sjálfvirka skjálftakerfið að staðsetja virknina nær landi, en allir þessir skjálftar færast suður á bóginn við nánari skoðun.

„Þetta eru bara venjulegar jarðskjálftahrinur og ekkert einsdæmi á þessum slóðum þótt þessar hræringar séu reyndar óvenju stórar og þéttar. Síðast var mikil virkni á þessum slóðum árið 1990,“ sagði Steinunn Jakobsdóttir sem settist í morgun við rannsóknir á mælingunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert