Össur flutti bestu ræðuna að mati JCI

Ingimundur K. Guðmundsson afhendir Össuri Skarphéðinssyni viðurkenningu fyrir bestu ræðuna …
Ingimundur K. Guðmundsson afhendir Össuri Skarphéðinssyni viðurkenningu fyrir bestu ræðuna í eldhúsdagsumræðum.

Að mati Junior Chamber á Íslandi stóð Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sig best í eldhúsdagsumræðunum á Alþingi í gærkvöldi. Segir JCI að Össur hafi sýnt fram á það að á Alþingi finnist góðir ræðumenn og hann hafi sýnt ýmsa góða takta í ræðupúltinu.

Í öðru sæti var Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sem varð neðstur í fyrra. Sigurjón sat námskeið í ræðumennsku fyrr á þessu ári og segir JCI að hann hafi sýnt miklar framfarir síðan. Í gærkvöldi hafi Sigurjón sýnt líflega ræðumennsku og haft góða kímni að leiðarljósi.

Í þriðja sæti kom Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs. Hann þótti best undirbúinn þeirra ræðumanna sem stigu í pontu og greinilegt að um vanan ræðumann er að ræða. Í fjórða sæti var Dagný Jónsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, en að mati dómnefndar JCI sýndi Dagný yfirlætislausan ræðustíl en kom þó máli sínu vel til skila.

Dómarar voru Ingimundur K. Guðmundsson, heimsmeistari í mælsku 2001, Árný Júlíusdóttir, heimsmeistari í rökræðu 2003 og Sólbjörg G. Sólversdóttir Íslandsmeistari í rökræðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert