Veitingamaður greiðir með vatnsglasinu

Jón Fanndal veitingamaður með auglýsingarnar um vatnið og kaffið. Í …
Jón Fanndal veitingamaður með auglýsingarnar um vatnið og kaffið. Í baksýn er kona hans Margrét Magnúsdóttir. mbl.is/Þorsteinn J. Tómasson

Flugfarþegar sem notið hafa veitinga á Flugbarnum á Ísafjarðarflugvelli hafa undanfarna daga rekið upp stór augu þegar þeir hafa lesið skilti þar sem stendur að Flugbarinn greiði 10 krónur með hverju vatnsglasi sem gestirnir drekka. Einnig fá eldri borgarar ókeypis kaffi kjósi þeir svo.

Jón Fanndal Þórðarson veitingamaður segist hafa viljað ganga á undan með góðu fordæmi hvað kaffiveitingar til aldraða varðar. „Ég er formaður félags eldri borgara á Ísafirði og því fannst mér ekki annað hægt en að bjóða öldruðum ókeypis kaffi og ég vona að aðrir geri slíkt hið sama“ segir Jón Fanndal.

En hvernig í ósköpunum datt honum í hug að greiða með hverju vatnsglasi sem hann réttir viðskiptavinum sínum. „Við Ísfirðingar eigum besta vatn í heimi og enginn drykkur er hollari en vatnið. Ég vil með þessu hvetja til aukinnar vatnsneyslu ungra sem aldinna“, segir Jón Fanndal.

Hann segir gesti verða hálf vandræðalega í fyrstu þegar þeir átta sig á því að þeir fá greitt fyrir að drekka vatn. „Margir vilja ekki þiggja tíkallinn og því hef ég komið upp bauk frá Rauða krossinum og þangað renna þeir tíkallar sem fólk vill ekki taka við. Þannig getur fólk drukkið besta vatn í heimi og um leið hjálpað þeim sem eru hjálpar þurfi“, segir Jón Fanndal Þórðarson veitingamaður á Ísafjarðarflugvelli.

Bæjarins besta

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert