Nafninu Christofer hafnað en Christopher samþykkt

Mannanafnanefnd hefur hafnað því að mannsnafnið Christofer sé tekið á mannanafnaskrá en tekið beiðni um nafnið Christopher til greina. Þá hefur nefndin einnig samþykkt beiðni um nafnið Daniel.

Fram kemur í fundargerð nefndarinnar að eiginnafnið Christofer teljist ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og ekki sé hefð fyrir þessum rithætti nafnsins því að samkvæmt upp­lýs­ing­um frá Hagstofu Íslands beri enginn íslensk­ur ríkisborgari nafnið þannig ritað. Eiginnafnið Christofer teljist því ekki uppfylla tilvitnað ákvæði laga um mannanöfn.

Þá segir nefndin, að eiginnafnið Christopher teljist ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur ís­lensks máls en hefð sé fyrir þessum rithætti því að samkvæmt upplýsingum frá Hag­stofu Íslands beri 19 íslenskir ríkis­borgarar sem eigi eða hafi átt lögheimili á Íslandi, nafnið Christopher að fyrsta eða öðru nafni. Eigin­nafnið Christopher taki íslenska eign­ar­fallsendingu (Christophers) og telst uppfylla ákvæði laga um mannanöfn.

Nefndin segir að eiginnafnið Daniel teljist ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur ís­lensks máls en hefð sé fyrir þessum rithætti því að samkvæmt upplýsingum frá Hag­stofu Íslands beri nú 41 íslenskur ríkisborgari sem eigi eða hafi átt lögheimili á Íslandi, nafnið Daniel að fyrsta eða öðru nafni. Eiginnafnið Daniel taki íslenska eign­ar­fallsendingu (Daniels) og teljist uppfylla ákvæði mannanafnalaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert