Stjórn Íslensku óperunnar hyggst beita sér fyrir óperuhúsi í Kópavogi

Stjórn Íslensku óperunnar hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að hún fagni hugmyndum Gunnars I. Birgissonar um byggingu óperuhúss í Kópavogi og vilji beita sér af alefli fyrir að hún megi verða að veruleika.

Í samþykkt stjórnarinnar segir að hugmynd Gunnars samrýmist afar vel óskum Íslensku óperunnar um hæfilega starfsaðstöðu og framtíðarheimili og að staðsetning í miðbæ Kópavogs væri ákjósanleg og áform um tengingu og samnýtingu með öðrum menningarstofnunum raunhæf.

Yfirlýsing stjórnarinnar fer í heild sinni hér á eftir:

Stjórn Íslensku óperunnar fagnar hugmyndum um byggingu óperuhúss í Kópavogi.
Stjórn Íslensku óperunnar hefur gert eftirfarandi samþykkt vegna hugmyndar sem Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri, hefur kynnt um byggingu óperuhúss í Kópavogi:
Stjórn Íslensku óperunnar fagnar hugmynd Gunnars I. Birgissonar, bæjarstjóra og alþingismanns, um byggingu sérhannaðs óperuhúss fyrir Íslensku óperuna á Borgarholtinu í Kópavogi.
Íslenska óperan hefur frá upphafi verið starfrækt sem sjálfseignarstofnun og notið virðingar innan lands og utan sem þjóðarópera Íslendinga. Helsti rekstrargrundvöllur hennar er þjónustusamningur við ríkið um tilgreindan fjölda óperuuppfærslna á ári, en samningurinn byggir á meginmarkmiðum Íslensku óperunnar um uppbyggingu og þróun óperulistar sem mikilvægs hluta íslensks menningar- og atvinnulífs.
Auknar kröfur óperugesta samfara mikilli gróska og fagmennsku í sönglist hér á landi hafa á skömmum tíma stóraukið þörfina á bættri starfsaðstöðu fyrir Íslensku óperuna. Óskir Íslensku óperunnar um framtíðarhúsnæði byggjast á meginmarkmiðum hennar og miðast við aðstöðu þar sem fram geti farið samfelld og fjölbreytt starfsemi er skapi óperulistafólki traustan atvinnugrundvöll, auk þess að uppfylla nútímakröfur um hljómburð, þjónustu við áhorfendur og vinnuskilyrði listafólks. Bent hefur verið á að sérhannaður óperusalur fyrir 750 áhorfendur með tilheyrandi leiksviði af einfaldri gerð væri ákjósanleg starfsaðstaða sem jafnframt gæti nýst vel fyrir aðrar greinar tónlistarleikhúss. Stjórn Íslensku óperunnar leggur áherslu á að byggingarkostnaður vegna nýrrar aðstöðu verði hóflegur og í samræmi við rekstrarmöguleika og umfang starfsemi Óperunnar í fyrirsjáanlegri framtíð.
Hugmynd Gunnars I. Birgissonar um byggingu óperuhúss í Kópavogi samrýmist afar vel óskum Íslensku óperunnar um hæfilega starfsaðstöðu og framtíðarheimili. Staðsetning óperuhúss í miðbæ Kópavogs er líka ákjósanleg og áform um tengingu og samnýtingu á aðstöðu með þeim menningarstofnunum sem fyrir eru á Borgarholtinu til að skapa aukna nýtingarmöguleika eru raunhæf.
Stjórn Íslensku óperunnar bindur miklar vonir við að nauðsynleg samstaða skapist milli Kópavogsbæjar, ríkis og einkaaðila um að gera hugmynd Gunnars I. Birgissonar um nýtt hús fyrir Íslensku óperuna að veruleika og vill beita sér af alefli fyrir að svo megi verða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert