Nýtt deildaskipulag samþykkt hjá Háskólanum á Akureyri

Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Háskólaráð Háskólans á Akureyri hefur samþykkt nýtt deildaskipulag og breytingar á stjórnsýslu og þjónustu með það að markmiði að búa hann betur undir framtíðina og ná jafnframt jafnvægi í rekstri. Hefur starfshópur skilað tillögum um hvernig spara megi um 50 milljónir króna árlega í rekstri háskólans til viðbótar við um 55 milljóna sparnað sem kynntur var í upphafi ársins. Verður deildum skólans m.a. fækkað úr 6 í fjórar og heimilað verður að innheimta skólagjalda af nemendum frá ríkjum utan EES.

Í tilkynningu frá HA segir, að samþykktirnar miði að eflingu Háskólans á Akureyri á næstu árum með umtalsverðri endurskipulagningu og einföldun á stjórnskipulagi. Það felist aðallega í sameiningu deilda, aukinni samnýtingu námskeiða, eflingu framhaldsnáms sem og sameiningu þjónustusviða og útvistun verkefna. Námsgráðum verði ekki fækkað og háskólinn muni halda áfram að vaxa ört. Háskólaráð vísaði samþykktum sínum til rektors til framkvæmda.

Síðla árs 2004 setti háskólaráð af stað vinnu sem hafði að markmiði að skila 100 milljónum króna hagræðingu í rekstri HA. Með rekstraráætlun ársins 2005 var kynnt áætlun um sparnað í árlegum rekstrarkostnaði upp á 55 milljónir króna. Það er gert með aukinni samkennslu milli deilda, sameiningu brauta/námsleiða eða með því að leggja af nám sem lítil aðsókn hefur verið í. Vorið 2005 skipaði háskólaráð starfshóp til að fara yfir rekstrarkostnað, skipulag deilda, stjórnsýslu og þjónustu með það að markmiði að ná fram frekari hagræðingu í rekstri. Starfshópurinn hefur skilað tillögum um hvernig spara megi til viðbótar liðlega 50 milljónir króna.

Færri og stærri deildir
Háskólaráð hefur samþykkt að háskóladeildir sem hafa akademíska snertifleti og/eða reynslu af samvinnu verði sameinaðar. Háskóladeildum verður fyrst í stað fækkað úr sex í fjórar. Auðlindadeild og upplýsingatæknideild verða sameinaðar viðskiptadeild og heiti viðskiptadeildar breytt í viðskipta- og raunvísindadeild. Í samræmi við þessar skipulagsbreytingar er við það miðað að deildarforseti viðskiptadeildar stýri hinni sameinuðu deild þar til ráðningartíma hans lýkur í október 2008. Auk þessarar deildar starfa félagsvísinda- og lagadeild, heilbrigðisdeild og kennaradeild við háskólann. Þegar kennaradeild flyst á háskólasvæðið er stefnt að enn frekari fækkun og endurskipulagningu deilda þannig að þær verði ekki fleiri en þrjár. Námsleiðum í félagsvísinda- og lagadeild verði fækkað og hagrætt verði í námsframboði í öðrum deildum án þess að það hafi áhrif á námsframvindu nemenda.

Jafnframt verður innra starf háskólans styrkt með því að koma á fót framkvæmdastjórn annars vegar og háskólafundi hins vegar. Lögð er til breyting á skipan og hlutverki háskólaráðs með meiri tengingu við atvinnulíf og auknu hlutverki ráðsins í stefnumótun.

Í tilkynningunni kemur fram, að framhaldsnám við HA verði eflt til muna og núverandi námsframboð verði aukið. Meðal þess sem verði skoðað sé að koma á fót sjálfstæðri stofnun eða félagi þar sem meginverkefnið yrði skipulag og framkvæmd framhaldsnáms í samstarfi við deildir háskólans sem verði faglega ábyrgar fyrir gæðum náms og veita prófgráður. Samhliða þessum aðgerðum sé gert ráð fyrir að vöxtur háskólans haldi áfram og að nemendum hans fjölgi a.m.k. um 6–9% á ári á næstu þremur árum.

Háskólinn á Akureyri hefur verið í miklum vexti undanfarin ár. Nemendur eru um 1550 og fastráðnir kennarar og annað starfsfólk eru um 170 manns. Stundakennarar eru tæplega 500.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert