Góður matur gleður Frakka

"Við erum að vísa til íslenskrar matarmenningar og þeirrar upplifunar að vera á Íslandi. Það er staðreynd að matur er einn mikilvægasti þáttur ferðalaga - bæði meðvitað og ómeðvitað. Því er verið að leggja aukna áherslu á að kynna íslenskan mat og matarmenningu um leið og Ísland er kynnt sem áfangastaður ferðamanna. Fyrir Frakka skiptir matur gríðarlegu máli. Þeir eru alltaf spurðir er þeir koma úr fríi "og hvernig var nú maturinn?" Það má eiginlega senda Frakka hvert á land sem er, þeir verða hvarvetna glaðir fái þeir gott að borða."

Þannig mælir Unnur Orradóttir-Ramette, viðskiptafulltrúi sendiráðs Íslands í París, við Morgunblaðið um kynningu sem haldin var þar í borg í gær undir heitinu "Saveurs islandaises", sem útleggja mætti sem "Keimur Íslands".

Matvæli, ferðir og viðskipti

Fjölmiðlum, frönskum úrvalskokkum og fyrirtækjum er selja ferðir til Íslands - þar á meðal Icelandair sem rekur umfangsmikla starfsemi í Frakklandi og áformar að fjölga ferðum milli landanna - var boðið til kynningarinnar, sem Unnur segir að haldin sé að hugmynd og frumkvæði Júlíusar Hafstein, sendiherra og yfirmanns skrifstofu ferðamála- og viðskiptaþjónustu í utanríkisráðuneytinu. Hugmyndin er að blanda saman kynningu á íslenskum matvælum, ferðamennsku og viðskiptum.

Siggi Hall var kominn ofan af Íslandi og töfraði úr hráefni sínu rétti sem kitluðu bragðlauka. Mátti heyra ánægjuhljóm úr munni viðstaddra er íslenskur bitinn kom undir tönn. "Það hefur gengið vel að koma íslenskum matvælum á framfæri, meðal annars með góðri frammistöðu íslenskra kokka í hinni frægu keppni Bocuse d'Or í Lyon í janúar annað hvert ár, nú síðast í ár. Norræn matargerðarlist hefur verið mjög hátt skrifuð og við höfum flotið þar með," segir Unnur.

Hún segir íslenskar landbúnaðarafurðir ekki fáanlegar í verslunum hér í Frakklandi en möguleiki sé að koma þeim á framfæri með sölu framleiðsluleyfa. Með þeim hætti hafi skyri verið komið á framfæri við Dani og hugsanlega við Frakka í framtíðinni. Þá komi smæð framleiðslunnar sér stundum illa.

Þannig hafi franski kokkurinn Joël Robuchon fyrir nokkru spurst fyrir um hvort hann gæti fengið þúsund tonn af lambakjöti en það hefði bæði verið dýrt vegna óhagstæðs gengis og ekki verið til nóg til að verða við óskum hans. Robuchon þessi er goðsögn í Frakklandi og var á sínum tíma kosinn "kokkur aldarinnar". Á sínum tíma þótti þriggja stjörnu veitingastaður hans í 16. hverfinu í París einn sá besti í heimi.

Beina athygli sinni að Íslandi

Beri áform tveggja franskra hótel- og matvælaskóla ávöxt segir Unnur að Íslendingar eigi seinna meir eftir að eignast góða sendiherra í frönskum kokkum framtíðarinnar. Skólarnir beini athygli sinni að Íslandi um þessar mundir. Annars vegar Ferrandi-skólinn sem er í eigu verslunarráðs Parísarborgar og er fyrir milligöngu fransk-íslenska verslunarráðsins í Reykjavík að stofna til sambands við Hótel- og matvælaskólann í Kópavogi um nemendaskipti og þjálfun.

Hins vegar Notre Dame-skólinn í hinni sögufrægu borg Chartres en forstöðumaður hans, Patrick Massellucci, var í kynningu sendiráðsins í París og sagði við Morgunblaðið að hann væri að stíga fyrstu skrefin í átt til þess að koma á sambandi við hótel og veitingahús á Íslandi um nemendaskipti. Massellucci efndi fyrir skömmu til fransk-íslensks kvöldverðar í skóla sínum og galdraði þar fram eftirrétt úr því sem Frakkar kalla hvítost og líkist nokkuð skyri og íslensku brennivíni.

Þessi áform skólanna munu gera íslenskum kokkanemum kleift að kynnast franskri matargerð og franskir nemar verða sendir til Íslands til að kynnast íslenskri matargerð. Unnur segir þar geta orðið um að ræða góða sendiherra íslenskrar matargerðar í framtíðinni.

Á kynningunni var Ísland kynnt sem áfangastaður ferðamanna með myndrænum hætti, en fulltrúi Evrópuskrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í Frankfurt, Marie Noel Adon, sem það gerði sagði íslenska náttúru og menningararfleifð draga flesta ferðamenn til landsins.

Tómas Ingi Olrich sendiherra gerði grein fyrir matvælakeppninni Food & Fun sem haldin verður í febrúar nk. í fimmta sinn. Hann sagði tímasetningu hennar enga tilviljun því á þessum árstíma gerðu Íslendingar sér dagamun og fögnuðu hækkandi sól - upprisu ljóssins. Ávarp Tómasar Inga mæltist vel fyrir enda sendiherrann flugmæltur á franska tungu. Það jók svo á dulúð athafnarinnar að framan af seytlaði lifandi og dúnmjúk raftónlist dúettsins Audible sem að hálfu leyti er skipaður hinni hálfíslensku Solveigu Chima.

Myndir og ljóð

Og til að krydda hinn íslenska keim sem sveif um sali voru gestir leystir út með nýútkominni Íslandsbók franska ljósmyndarans Patricks Desgraupes - sannkölluðu meistaraverki þar sem listamaðurinn kveðst á við blæbrigðaríka íslenska náttúruna með því að flétta saman mótívum úr henni og tilvitnunum í ljóð höfuðskálda. Í leit sinni að sérstöku sekúndubroti íslenskrar birtu er þó Steinn Steinarr honum hvað hugleiknastur. Og í samtali við Morgunblaðið um bók sína - afurð ítrekaðra heimsókna í 17 ár til landsins sem hann sagðist vera "í órjúfanlegu ástarsambandi við" - sagði Desgraupes: "Ætli maður komist ekki næst því að upplifa sköpun jarðar á Íslandi."

Í ástarsambandi við íslenska náttúru

"ÉG hrökk upp um nótt árið 1987; vaknaði af draumi er nafnið Ísland spratt fram þar sem ég sveif um í afar tilkomumiklu umhverfi og töfrandi birtu - hálfgerðri Paradís. Þarna gerðist eitthvað sem ekki verður útskýrt en hafði afdrifarík áhrif og mótað hefur líf mitt sem listamanns. Ég vissi ekki hvar þetta land var fyrr en ég hafði glaðvaknað og flett upp í landabréfabók. Og nafnið sótti svo sterkt á mig næstu mánuði að ekki var hjá því komist að leggja drög að Íslandsferð - á vit þessa ævintýris sem bókin er."

Þannig mælir franski landslagsljósmyndarinn Patrick Desgraupes í samtali við Morgunblaðið í París. Nýverið er komin út í Frakklandi hjá forlaginu Hermé listræn ljósmyndabók hans sem ber titilinn Islande - le sublime et l'imaginaire. Að eigin sögn skírskotar bókartitillinn til glæsileika íslenskrar náttúru og hugarörvunar hennar. Bókin, sem hefur að geyma tæplega 200 stórar myndir, kemur einnig út á næstu vikum í Bretlandi og Bandaríkjunum hjá forlaginu Abrams og Ítalíu hjá Ippocampo. Þá mun Edda gefa bókina út á Íslandi í febrúar.

Glímir við birtuna

Bók Desgraupes er grípandi við fyrstu skoðun. Í verkum sínum glímir hann við íslenska birtu. Myndirnar eru teknar á 4x5 tommu filmu sem gerir smæstu atriði einkar skörp. Þær fanga hugann og kitla ímyndunaraflið því meira sem oftar er blaðað í bókinni. Í henni ljóðar listamaðurinn í blæbrigðaríka náttúruna og fléttir saman mótífum sínum og tilvitnunum í ljóð íslenskra höfuðskálda. Í leit sinni að sérstöku sekúndubroti íslenskrar birtu er þó Steinn Steinarr honum hvað mest hugleikinn.

Þessi leit er viðameiri en lestur bókarinnar kann að gefa til kynna. Eftir drauminn einstaka hófust ferðalög til Íslands, nokkrum sinnum á ári frá og með 1988. "Ég ferðaðist um og skoðaði landið. Vetur, sumar, vor og haust skoðaði ég sömu blettina. Lá í tjaldi eða fjallaskálum og beið færis jafnt að nóttu sem degi. Í roki og rigningu og drungalegri birtu eða rjómalogni og heiðskíru. Er mótíf virtist blasa við kom ég aftur og aftur á viðkomandi stað, stundum 10, 20 eða 30 sinnum. Skoðaði birtuna og áætlaði hvenær best væri að mynda, í dagrenningu eða við sólarlag eða allt þar á milli. Stillti síðan vélina og smellti af þegar ég taldi augnablikið vera komið. Það kom svo ekki í ljós fyrr en við framköllun filmunnar hvort ég hafði fangað eilífðina eða ekki neitt," segir hann.

Desgraupes hefur víða farið en segir birtuna hvergi eins og á Íslandi. Hún mýki hrjóstrugt og hrjúft landslagið og seiðmagni það. Ljósið tengi jörð og himin og mennina guði sínum, ef svo mætti segja, dulrænu sambandi. Slíkt samband megi fanga í íslenskri birtu en augnablikin séu þó vandfundin og kalli á mikla yfirlegu.

Á eftir að taka fleiri myndir

"Ég er gagntekinn af Íslandi, engin orð fá því sambandi lýst. Það er einhver dulinn kraftur sem dregur mig þangað aftur og aftur. Og þótt þessi bók sé komin út þá er þráðurinn milli mín og íslenskrar náttúru ekki rofinn. Ég á eftir að koma aftur og aftur og gæla við hana. Það er fullt af myndum í henni sem á eftir að taka. Maður verður bara að finna augnablikið þar sem fanga má eilífðina," segir hann.

Desgraupes hefur komið heilmiklu af Íslandsmyndum sínum fyrir á vefsíðu sinni á netinu, á slóðinni //www.perso.wanadoo.fr/desgraupes. Í samtali við Morgunblaðið um bók sína - afurð ítrekaðra heimsókna í 17 ár til landsins sem hann sagðist vera "í órjúfanlegu ástarsambandi við."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert