Meirihluti landsmanna telur eitthvað taka við eftir dauðann

Meirihluti landsmanna, eða tæp 56%, telur að eitthvað taki við eftir dauðann, en enginn geti vitað hvað það verður. Þetta kemur fram í skoðanakönnun, sem Gallup gerði fyrir Kirkjugarða Reykjavíkur fyrir nokkru.

15,3% sögðust telja að við dauðann flytjist sálin yfir á annað tilverustig, 9,6% sögðust ekki telja að til væri neins konar líf eftir dauðann og 8,1% sögðust telja að maðurinn rísi upp til samfélags við guð eftir dauðann. 6% sögðust telja að maðurinn endurholdgist eftir dauðann en 5,1% sögðust ekki telja að neitt af því sem nefnt er hér að ofan ætti við. 5% tóku ekki afstöðu til spurningarinnar.

Í könnuninni var einnig spurt um ýmislegt tengt útförum. Flestir, eða 41,5%, sögðust telja ræðu prestsins það mikilvægasta við útfarir en 29,2% sögðust telja tónlistina, sem leikin sé, mikilvægasta. 10,1% sögðust telja almenna umgjörð útfararinnar, svo sem kirkjuna og skreytingar mikilvægasta og 3,9% nefndu erfidrykkjuna.

Langflestir, eða 66,9%, sögðust telja það heppilegasta útfararsiðinn að látnir séu grafnir í kistu. 23,5% sögðust telja heppilegast að að lík séu brennd og askan grafin í duftkeri og 9,7% að lík séu brennd og duftinu dreift á víðavangi, utan skipulagðra svæða.

Þá kemur fram í könnuninni, að 8,9% sögðust aldrei fara í kirkjugarða. Rúm 18% sögðust fara einu sinni á ári að jafnaði og líkt hlutfall sagðist fara 2 á ári. 27,2% sögðust fara 3-5 sinnum og 13,5% sögðust fara 6-11 sinnum á ári. 13,3% sögðust fara einu sinni í mánuði eða oftar.

Könnunin var gerð snemma árs 2004 en hefur ekki birst opinberlega fyrr.

Könnun um trúarlíf

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert