Bræðurnir óneitanlega líkir í útliti

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað ökumann af ákæru lögreglustjórans í Reykjavík fyrir að aka sviptur ökuréttindum og sinna ekki stöðvunarmerkjum lögreglu við Hringbraut 14. ágúst sl.

Lögreglan sagðist hafa verið að stýra umferð á vettvangi umferðaróhapps og skipað ökumanninum að stoppa vegna vettvangsvinnu. Sá hefði ekki fellt sig við það og ekið áfram jafnvel þótt lögreglumaður bankaði mjög greinilega á hliðarrúðurnar. Prófleysi eiganda bifreiðarinnar kom í ljós við skoðun í ökuskírteinaskrá. Í skránni er mynd af eigandanum og töldu lögreglumennirnir að það væri sá sem þeir höfðu séð á bílnum. Ákærði neitaði hins vegar sök og sagði bróður sinn hafa verið í bílnum í umrætt sinn. Bróðirinn bar á sama veg og sagðist ennfremur oft hafa fengið bílinn lánaðan enda hefði ákærði lítið með hann að gera próflaus.

Taldi dómurinn að þar sem þeir bræður væru óneitanlega líkir í útliti yrði ekki útilokað að einhver annar en ákærði hefði verið á bílnum og sýknaði hann vegna sönnunarskorts.

Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, dæmdi málið. Jónas Þór Guðmundsson hdl. var verjandi ákærða og Sturla Þórðarson, fulltrúi lögreglustjóra, sækjandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert