Ágúst Guðmundsson: Stóriðjustefnan úrelt

Frá Viðskiptaþingi í dag.
Frá Viðskiptaþingi í dag. mbl.is/Brynjar Gauti

Ágúst Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar Group, kom inn á stóriðjuframkvæmdir á Íslandi í erindi sínu á Viðskiptaþingi 2006. „Þótt miklar breytingar hafi átt sér stað á síðustu tíu árum, eimir þó enn víða eftir að gömlum og að mínu mati úreltum hugsunarhætti. Dæmi um það er sú áhersla okkar á þungaiðnað - þó einkum álver - eða hin svokallaða stóriðjustefna."

Segir Ágúst að sú skoðun virðist vera almenn á meðal Íslendinga að þeir verði að framleiða eitthvað áþreifanlegt en geti ekki lifað á þekkingu og þjónustu.

„Teljum við að áframhaldandi uppbygging stóriðju og áliðnaðar á Íslandi sé sú leið sem muni skila okkur mestu í framtíðinni og að þeirri fjárfestingu, sem nemur og mun nema hundruðum milljörðum króna á næstu árum, muni skila okkur meiri arðsemi en fjárfesting í því hugviti og þeim krafti sem Íslendingar búa yfir sem þjóð?

Ég er sannfærður um að jafnvel þó að Íslendingar nái því að komast í hóp stærstu álframleiðenda heims og myndu virkja alla hagkvæmustu virkjunarkosti landsins, myndi arðsemi þess og hagur fyrir íslenskt samfélag aldrei verða meiri en sem nemur framlagi eins öflugs útrásarfyrirtækis.

Það er mýta að hagkerfið þurfi á álverum að halda til að vaxa. Þeir sem trúa því eru í raun að lýsa yfir vantrausti á íslenskt atvinnulíf og getu þess til að skapa þjóðinni ný verðmæti.

Nú stendur til að byggja ný álver og stækka þau sem fyrir eru á næstu árum og landið er brátt að verða eitt helsta álframleiðsluland heims. Þetta mun leiða til þess að krónan mun halda áfram styrk sínum með þeim afleiðingum að önnur íslensk iðnfyrirtæki munu flytja starfsemi sína annað. Þetta gefur auga leið. Hvaða útflutningsgreinar munu þola áratugar nær samfellt uppbyggingarskeið í stjóriðju frá 2003 til 2013?

Afleiðingin gæti orðið sú að útflutningur aukist í raun og veru ekkert þegar upp er staðið, heldur færist útflutningsframleiðslan á milli greina. Þannig gætu þær útflutningsgreinar hrofið á braut sem byggja á þekkingu og hugviti og hafa háan virðisauka, segir stjórnarformaður Bakkavarar Group.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert