Telja að Hálslón fyllist á nokkur þúsund árum

Kárahnjúkastífla og Desjarárstífla við Fremri Kárahnjúk munu valda því að …
Kárahnjúkastífla og Desjarárstífla við Fremri Kárahnjúk munu valda því að landið í forgrunni hverfur undir vatn. Efri hluti Sandfells mun standa upp úr Hálslóni eins og eyja. mbl.is/RAX
Eftir Árna Helgason arnihelgason@mbl.is
Hálslón við Kárahnjúkavirkjun fyllist ekki af aurburði á 400-500 árum eins og gert hefur verið ráð fyrir, heldur á nokkur þúsund árum. Þetta kemur til vegna þess að Brúarjökull bráðnar vegna hlýnandi loftslags á næstu 100-200 árum, að því er fram kemur í niðurstöðum þeirra Birgis Jónssonar, Jónasar Elíassonar og Sigurðar Magnúsar Garðarssonar, fræðimanna við verkfræðideild Háskóla Íslands, en þær voru kynntar í erindi á ráðstefnu á Hótel Nordica í gær.

Gert hefur verið ráð fyrir því að Hálslón fyllist af aurburði á 400-500 árum en þá var ekki tekið tillit til bráðnunar Brúarjökuls.

Sigurður Garðarsson dósent segir að í rannsókninni hafi verið sett upp líkan af bráðnun jökulsins.

"Þegar jökullinn minnkar, þá minnkar aurburðurinn frá jöklinum inn í Hálslón. Það mun hægja mikið á þessum aurburði og þessar niðurstöður benda til þess að í stað þess að verða fullt á 500 árum verði lónið aðeins hálffullt þá," segir Sigurður.

Hann tekur fram að töluverð óvissa sé í reikningum um hvenær nákvæmlega lónið fyllist en það verði að minnsta kosti eftir nokkur þúsund ár.

Dreifðara vatnsmagn í ánni

Loftslagsbreytingar munu einnig hafa nokkur áhrif á Jökulsá á Dal og segir Sigurður að þar muni veðurfar hafa áhrif. "Það er verið að skoða þetta sem stendur en sennilega verður meira vatnsmagn í ánni og eins verður það jafndreifðara yfir árið heldur en í dag.

Ástæðan fyrir því að Hálslón er svona stórt er að allt rennslið kemur á sumrin og það er verið að miðla því yfir allt árið, þannig að ef úrkoman dreifist meira yfir árið þarf ekki jafnstórt lón," segir hann og bætir við að mikilvægt sé að hafa í huga að langt sé í að þessar breytingar verði.

Jákvæð áhrif

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að gangi spár um hlýnun eftir muni það á næstu tugum eða hundruðum ára hafa jákvæð áhrif á vatnsaflsvirkjanir. Hann segir að þegar Landsvirkjun hafi gefið út skýrslu sína um mat á umhverfisáhrifum vegna Kárahnjúkavirkjunar hafi verið miðað við óbreytta bráðnun Brúarjökuls og farið mjög varlega í að spá til framtíðar.

"Gangi hins vegar þessar hlýnunarspár eftir, sem komu fram á ráðstefnunni í dag, þá verður orkan auðvitað meiri í núverandi jökulvatnsvirkjunum og lónin duga miklu lengur en ráð hefur verið fyrir gert.

Þessu til viðbótar má ekki gleyma því að virkjun vatnsafls og nýting annarra endurnýjanlegra orkugjafa vinnur gegn hlýnun andrúmsloftsins," segir Friðrik.

Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert